Tveir aðalmenn og einn varamaður í endurupptökunefnd hafa vikið sæti vegna vanhæfis í máli sem Ólafur Ólafsson, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu, lagði fyrir nefndina í síðasta mánuði. Á meðal þeirra sem vikið hafa sæti er Björn L. Bergsson, formaður nefndarinnar. Auk hans hafa vikið Þórdís Ingadóttir og Sigurður Tómas Magnússon, varamður Þórdísar í nefndinni. Lögmaður Ólafs hefur einnig farið fram á að Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður og varamaður Björns í nefndinni, víki sæti. Frá þessu er greint í Viðskiptablaðinu í dag.
Þar segir að nefndarmennirnir víki allir sæti vegna tengsla. Björn vegna þess að hann var settur ríkissaksóknari í málum sérstaks saksóknara á tæplega eins og hálfs árs tímabili, Þórdís vegna þess að hún er persónulegur vinur Björns Þorvaldssonar, saksóknara í Al Thani-málinu, og Sigurður Tómas vegna þess að hann hefur starfað sem ráðgjafi fyrir sérstakan sakóknara frá árinu 2009. Lögmaður Ólafs telur Kristbjörgu auk þess vanhæfa vegna þess að hún er vinkona Bjargar Thorarensen, eiginkonu Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara, sem var einn dómaranna í Al Thani-málinu. Enn á eftir að skipa nýjan nefndarmann í stað Þórdísar og Sigurðar Tómasar og í kjölfarið verður mögulegt vanhæfi Kristbjargar tekið til umfjöllunar í endurupptökunefnd.
Rangur Óli
Ólafur Ólafsson, sem hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Al Thani-málinu svokallaða fyrr á þessu ári fyrir markaðsmisnotkun, óskaði eftir því um miðjan maí við endurupptökunefnd að málið verði tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju hvað hann varðar. Helsta ástæðan fyrir beiðninni er sú að í dómi Hæstaréttar voru sönnunargögn í málinu ranglega metin, að mati Ólafs. Í tilkynningu sem Þórólfur Jónsson, lögmaður Ólafs, sendi frá sér af þessu tilefni segir að þetta atriði hafi haft veigamikil áhrif á niðurstöðu dómsins.
Í tilkynningunni segir: „Að mati Ólafs lagði Hæstiréttur rangt mat á símtal tveggja manna, þar sem annar vísar til samtals við ótilgreindan mann sem kallaður var „Óli“, um tiltekna þætti viðskiptanna sem málið tók til. Í vitnisburðum fyrir héraðsdómi og öðrum sönnunargögnum málsins kemur skýrt fram að þarna var átt við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson lögmann. Þrátt fyrir þessa staðreynd telur Hæstiréttur að vísað hafi verið til Ólafs Ólafssonar.
Um grundvallaratriði er að ræða. Af umræddu símtali er sú ranga ályktun dregin að Ólafur Ólafsson hafi verið upplýstur um tiltekna þætti viðskiptanna, þrátt fyrir að fyrirliggjandi gögn sýni annað. Ekkert annað í málinu sýnir fram á meinta vitneskju Ólafs um þessi atriði. Þessi ranga forsenda er hornsteinninn að sakfellingu Ólafs í dómi Hæstaréttar sem telur að á grunni símtalsins sé hafið yfir skynsamlegan vafa að Ólafur Ólafsson skyldi njóta arðs til jafns við Al Thani.
Verjendur höfðu ekki tækifæri til þess að leiðrétta þessi mistök Hæstaréttar því símtalið var ekki tekið til efnislegrar meðferðar í málflutningnum, fyrirliggjandi gögn bentu ekki til þess að vafi ríkti um þetta atriði og ekkert gaf til kynna að dómararnir skildu efni símtalsins með öðrum hætti en héraðsdómur, ákæruvald, verjendur og ákærðu.
Það er grundvallaratriði þegar einstaklingur er dæmdur í fangelsi að það sé gert á réttum forsendum og forsvaranlegu mati á gögnum málsins. Það var ekki raunin í þessu máli, a.m.k. hvað þetta varðar, og er því beiðst endurupptöku málsins.“
Eiginkonan skrifaði grein
Endurupptökubeiðnin hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, skrifaði grein í Fréttablaðið í byrjun apríl þar sem hún sagði að eiginmaður sinn hafi verið dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í Al Thani-málinu svokallaða á grundvelli misskilnings.
Í greininni segir að í upphafsforsendur dómsins vísi Hæstiréttir til símtals í gögnum málsins þar sem ítrekað komi fram að rætt hafi verið við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna. „Hæstiréttur fer mannavillt í rökstuðningi sínum og ályktar að hér sé átt við eiginmann minn, Ólaf Ólafsson, en hið rétta er að um er að ræða lögfræðing með sama fornafni sem er sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti,“ segir Ingibjörg í grein sinni. Hún fullyrðir að bæði ákæruvaldið og héraðsdómur hafi áttað sig á því að umrætt símtal var ekki við Ólaf, eiginmann hennar.
Ingibjörg telur þennan misskilning vera grafalvarlegan þar sem Hæstiréttur dragi, að hennar mati, mjög víðtækar ályktanir af samtalinu strax í upphafi dóms síns.
Misskilningur að um misskilning sé að ræða
Björn Þorvaldsson, sem sótti Al Thani-málið fyrir hönd embættis sérstaks saksóknara, sagði það hins vegar misskilning hjá Ingibjörgu að eiginmaður hennar hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings.
Það sé alveg skýrt að í því símtali þar sem rætt hafi verið um „Óla“ sem Hæstiréttur fjallar um sé verið að ræða Ólaf Ólafsson, ekki lögfræðing með sama fornafni sem sé sérfræðingur í kauphallarviðskiptum. „Ég held að þetta sé misskilningur hjá henni. Hún vitnar þarna í símtal sem á sér stað og getið er í dómnum. Bæði í ljósi þess sem fram kemur í símtalinu og samhengisins þá er í fyrsta lagi alveg klárt mál að það er verið að tala um Ólaf Ólafsson í þessu símtali. Í öðru lagi, sem kemur í ljós fyrir öllum sem lesa dóminn, þá eru fullt af öðrum gögnum, tölvupóstar og framburðir og annað, sem benda til aðkomu Ólafs. Þannig að ef þessu símtali yrði kippt út yrði hann sakfelldur eftir sem áður,“ sagði Björn í samtali við Kjarnann í apríl.