Bernhöftsbakarí við Bergstaðastræti hækkaði verð fyrir rúnnstykkið úr fimmtíu krónum upp í áttatíu krónur um áramótin, eða þegar breytingar á lægra þrepi virðisaukaskatts tóku gildi. Þegar árið 2015 gekk í garð hækkaði lægra þrep skattsins, þar sem flest matvæli heyra undir, úr sjö prósentum upp í ellefu.
Í tilkynningu sem Bernhöftsbakarí hefur uppi við í bakaríinu vegna verðbreytingarinnar segir: „Kæru viðskiptavinir, allt tekur að lokum enda. Við matarskattshækkunina núna um áramótin neyðumst við til þess að hækka verðið á rúnnstykkjunum okkar. Við höfum boðið rúnnstykkin á 50 krónur í heil 10 ár, þrátt fyrir allt það sem gengið hefur á í samfélaginu.“
Tilkynningin sem Bernhöftsbakarí hefur hengt upp til að skýra hækkað verð á rúnnstykkjum.
Þá segir í tilkynningunni hjá Bernhöftsbakarí: „Við getum ekki lengur haldið því lága verði sem var. Þörfin fyrir hækkun hefur vaxið mikið síðustu árin.“
Verðið á rúnnstykkjunum hjá Bernhöftsbakarí hefur sem sagt hingað til staðið af sér bankahrun og þrengingar í efnahagslífinu, sem vart eiga sér hliðstæðu. Ákvörðun stjórnvalda um að hækka matarskattinn varð að endingu kornið sem fyllti mælinn hvað rúnnstykkin í Bernhöftsbakarí varðar.