Neytendasamtökunum hafa borist margar fyrirspurnir frá áramótum vegna breytinga á virðisaukaskatti og afnáms vörugjalda, þar á meðal sykurskattsins svokallaða. Þar sem bakarí nota mikinn sykur í kökur og bakkelsi hafa margar kvartanir beinst að bakaríum. Samkvæmt svörum sextán bakaría við fyrirspurnum Neytendasamtakanna hafa þau tekið út sykurálagningu sem var áður fyrir hendi vegna sykurskattsins svokallaða, en um leið hækkað vörur almennt vegna hækkunar á virðisaukaskatti, en hann hækkaði úr 7 í 11 prósent um áramót.
Neytendasamtökin telja þessa könnun sýna að eðlilega hafi verið staðið að verðbreytingun í bakaríunum, sem svöruðu spurningum samtakanna.
Sætabrauð fellur undir tollskrárnúmerið 1905.9049, kökur og konditorstykki, en þegar sykurskatturinn var lagður á var lagt vörugjald á vörur sem falla undir þennan flokk upp á 21 kr./kg en jafnframt höfðu fyrirtækin heimild til að reikna vörugjaldið (sykurskattinn) út frá raunverulegu sykurinnihaldi.
Svör bakaríanna, sem Neytendasamtökin kröfðu svara, fara hér að neðan, orðrétt eins og þau komu til samtakanna.
Bernhöftsbakarí
Engar verðbreytingar voru á bakkelsi og tertum um síðustu áramót. Bakaríið segist nota eins lítinn sykur og mögulegt er, það hafi greitt sykurskattinn á hvert kíló og þannig hafi þessar breytingar komið út á sléttu hvað varðar þessar vörur, þ.e. hækkun virðisaukaskatts vóg upp á móti afnámi sykurskatts.
Björnsbakarí Skúlagötu
Þegar sykurskattur var lagður á keypti bakaríið birgðir af sykri og því var verði ekki breytt. Þegar þær sykurbirgðir kláruðust seint í haust var ljóst að þessi skattur yrði lagður af og var því áfram óbreytt verð. Um áramót hækkuðu vörur því aðeins sem nam hækkun virðisaukaskatts.
Bæjarbakarí
Verð var ekki hækkað þegar sykurskatturinn var lagður á. Til stóð að hækka verð vegna breytinga á virðisaukaskatti, en þegar svar barst hinn 14. janúar sl. hafði það ekki verið gert.
Jói Fel
Um áramót voru vörur sem báru sykurskatt lækkaðar í verði sem honum nam (21 kr. á hvert kíló vöru sem er með sykri). Síðan voru allar vörur hækkaðar um 2-4% vegna hækkunar á virðisaukaskatti.
Kornið
Engar verðbreytingar höfðu átt sér stað frá mars 2013. Um áramótin voru hækkanir almennt 3-4% og mestar 6% en einnig voru vöruliðir sem breyttust ekki í verði. Tekið var mið af þróun framleiðslukostnaðar síðustu tvö árin.
Kristjánsbakarí
Um áramótin var verð á vörum sem báru sykurskatt lækkað sem honum nam. Þá hækkaði verð um 4% vegna hækkunar á virðisaukaskatti. Vörur sem báru sykurskatt hækkuðu um ca. 2,5% þar sem sykurskattur vóg um 1,5%.
Kökuhornið
Þegar sykurskatturinn var lagður á var verði ekki breytt og því ekki svigrúm til lækkana nú. Hækkanir vegna breytinga á virðisaukaskatti tóku gildi um áramót.
Kökulist
Þegar svar barst hinn 19. janúar var enn verið að nota sykur sem keyptur hafði verið með sykurskatti. Um áramót var á verð á vörum hækkað um 3%, m.a vegna launaskriðs.
Myllan, tertugallerí
Myllan hækkaði ekki verð þegar sykurskatturinn var lagður á og hefur því verði ekki verið breytt vegna afnáms hans. Verð hækkaði í samræmi við hækkun virðisaukaskatts.
Mosfellsbakarí
Kökur og sætabrauð var lækkað um 21 kr. kílóið, kex og smákökur um 63 kr. kílóið og konfekt um 116 kr. kílóið. Verð hækkaði í samræmi við hækkun virðisaukaskatts.
Okkar bakarí
Í svari dags. 19. janúar kom fram að vöruverði hefði ekki verið breytt vegna þessara breytinga. Bakkelsi og kökur sem báru sykurskatt muni ekki hækka og einhverjar þeirra muni lækka í verði.
Reynir bakari
Í svari dags. 15. janúar kom fram að verði hefði ekki verið breytt á neinum vörum og ekki hafði verið tekin nein ákvörðun um breytingar.
Sandholtsbakarí
Vöruverð hefur hækkað aðeins undanfarið en ekki vegna þessara breytinga þar sem afnám sykurskatts og hækkun virðisaukaskatts jafnar hvort annað út. Verð á ýmsu hráefni, t.d. spelthveiti, súkkulaði, hnetum og fræjum, hafi hins vegar hækkað í verði.
Bakarí sem ekki svöruðu
Eftirtalin bakarí svöruðu ekki erindi Neytendasamtakanna þrátt fyrir ítrekun samtakanna, samkvæmt upplýsingum frá þeim:
- Bakarameistarinn
- Björnsbakarí, sami aðili rekur bakarí undir þessu heiti á eftirtöldum stöðum: Austurströnd, Dalbraut, Fálkagötu, Hringbraut og Miklubraut.
- Sveinsbakarí