Það myndi kosta ríkið tæplega ellefu milljarða króna að færa niður verðtryggð námslán með sama hætti og gert var við verðtryggð íbúðalán í leiðréttingunni svokölluðu. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.
Fjármálaráðuneytið fékk gögn frá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir tímabilið 2008 til 2009 og notast var við meðalstöðu námslána á þessum árum. Þessi aðferð er sögð gefa góða mynd af því hver lækkun lána yrði miðað við forsendur leiðréttingar verðtryggðra íbúðalána. „Staða námslána í árslok 2009 nam 103 milljörðum kr. Í árslok 2014 nam þessi fjárhæð 213 milljörðum kr. Um 42 milljarðar kr. (um 20%) af þeirri fjárhæð eru settir á afskriftareikning hjá sjóðnum enda er reiknað með því að allt að helmingur námslána greiðist ekki upp að fullu,“ segir í svarinu.
Miðað við sömu forsendur um hækkun umfram vísitölugildi, og notaðar voru við lækkun verðtryggðra íbúðalána, er því áætlað að lækkun námslána gæti numið tæpum ellefu milljörðum króna. „Hafa þarf í huga að þessi aðgerð snertir skuldara námslána með allt öðrum hætti en lækkun á verðtryggðum íbúðalánum þar sem afborganir námslána eru að mestu háðar tekjum en ekki fjárhæð skuldar. Lækkun á verðtryggðum námslánum leiðir þannig ekki til lægri greiðslubyrði fyrir lántaka, heldur styttist lánstíminn. Vaxandi fjöldi lánþega sjóðsins nær ekki að greiða lán sín að fullu á ævinni og fyrir þá skiptir lækkun höfuðstóls litlu máli,“ segir í svarinu.