Gerðardómur kvað upp dóm sinn klukkan tvö í dag, í kjaradeilu milli ríkisins og átján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrúnarfræðinga. Kjarasamningurinn við félög BHM mun gilda frá næstu mánaðarmótum og renna út 31. ágúst 2017.
Beinar launahækkanir í ár til aðildarfélaga BHM verða 7,2 prósent, afturvirkt frá 1. mars 2015, og 5,5 prósent frá júní 2016 auk eingreiðslu að fjárhæð 63 þúsund krónur þann 1. júní 2017.
Í samtali við fréttastofu RÚV kveðst Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, ánægð með að tekið sé tillit til menntunar í launum og að úrskurðurinn gildi til tveggja ára, styttra en aðrir kjarasamningar sem hafa verið gerðir. Að öðru leyti gat hún ekki tjáð sig um úrskurð gerðardóms sem hún hafði ekki farið yfir gaumgæfilega.
Gerðardómur féllst á þau rök BHM að þar sem kjarasamningur aðila er þvingaður fram með lögum, en kemur ekki til með frjálsum samningum, þá sé eðlilegt að samningurinn standi sem styðst. Ákveðið var að hann gildi í tvö ár.
Samningur við Félag íslenskra hjúrkunarfræðinga er til fjögurra ára og kveður á um 21,7 prósenta hækkun. Lesa má nánar um samninginn, og um fyrstu viðbrögð formanns FíH, hér.