Á föstudaginn fór fram aðalmeðferð í máli Hafnarfjarðarkaupstaðar gegn útgerðarfélaginu Stálskipum, þar sem bæjarfélagið krefst þess að framsal aflaheimilda til fjögurra útgerðarfélaga verði ógilt. Væntanlega mun dómsniðurstaða liggja fyrir í málinu innan fjögurra vikna.
Stálskip seldi skipið Þór HF-4 til Rússlands sem og aflaheimildir skipsins til Síldarvinnslunnar, Útgerðarfélagi Akureyringa, Gjögurs hf. og Samherja í janúar á síðasta ári. Stálskip gerðu bæjarfyrirvöldum í Hafnarfirði ekki viðvart um söluna fyrr en eftir að henni lauk.
Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði töldu að brotið hefði verið gegn forkaupsrétti sínum, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, með sölunni og höfðaði mál til ógildingar á sölu skipsins til Rússlands annars vegar og hins vegar til ógildingar á framsali aflaheimilda innanlands.
Sá hluti málsins sem snéri að skipinu var felldur niður í desember þar sem ekki tókst að birta stefnu innan málshöfðunarfrestsins.