Norsk sendinefnd á vegum þarlendra varnarmálayfirvalda, sem kom til landsins í júní 2013 í boði utanríkisráðuneytisins og heimsótti af því tilefni meðal annars æfingaaðstöðu lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar, ámálgaði við fulltrúa ríkislögreglustjóra að lögreglunni á Íslandi stæði mögulega til boða að fá til eignar MP5 hríðskotabyssur sem verið væri að afleggja hjá norska hernum.
Þetta segir Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra í samtali við Kjarnann. Jón segir norsk stjórnvöld þannig hafa átt frumkvæðið að því að afhenda íslenskum lögregluyfirvöldum hríðskotabyssurnar. Þá segir hann Landhelgisgæsluna hafa haft milligöngu um afhendingu vopnanna. Hann getur ekki svarað fyrir það hvort Landhelgisgæslan hafi fengið vopn sömuleiðis frá norska hernum. Kjarninn hefur ekki náð tali af Georgi Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, í dag, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Ákvörðunin ekki háð samþykki innanríkisráðherra
Heimsókn norsku sendinefndarinnar hingað til lands má rekja til samstarfs þjóðanna á vettvangi varnarmála. Jón Bjartmarz segir Ríkislögreglustjóra hafa upplýst innanríkisráðuneytið í júlí 2013 um boðið og fyrirætlanir embættisins hafi svo verið kynntar á fundi með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í ágúst 2013.
Jón segir ákvörðun embættisins, um að þiggja gjöf norska stjórnvalda, ekki hafa verið háða samþykki innanríkisráðherra. Samkvæmt reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 1999, sé embættinu í sjálfsvald sett að taka ákvarðanir af þessu tagi.
Reglur sem ekki fást opinberaðar
Fyrrgreindar reglur hafa ekki verið gerðar opinberar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að synja beiðnum um birtingu reglnanna.
Í úrskurði nefndarinnar frá 5. maí síðastliðnum segir: "Í umræddum reglum og skýringum við þær er að finna lýsingu á verklagi lögreglu þegar upp koma alvarleg mál á sviði löggæslu þar sem beita þarf valdi. Reglurnar hafa því að geyma upplýsingar um skipulag löggæslu og varða öryggi ríkisins. Verði almenningi veittur aðgangur að reglunum kann það að nýtast þeim sem hyggjast fremja alvarleg afbrot og draga úr fælingarmætti lögreglunnar. Opinberun reglnanna myndi því raska almannahagsmunum."