Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, stendur í stórræðum þessa dagana, eftir að hafa komið úr fríi frá Bandaríkjunum. Verkfallsaðgerðir hjá félagsmönnum BHM hafa nú víðtæk áhrif, og miklar líkur eru á því að frekari aðgerðir geti haft enn víðtækari áhrif, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins og stjórnsýslunnar.
Augljóst er að samningar sem ríkið gerði við lækna, um að hækka laun þeirra um meira en 20 prósent, hafa haft mikil áhrif á það, í hvaða farveg kjaraviðræðurnar eru nú. Félagsmenn BHM vilja fá svipaða hækkun, og á sömu forsendum. Enda blasir við að stjórnvöld geta ekki valið sér rök eftir eigin hentistefnu þegar kemur að kjarasamningunum. Slíkt mun alltaf koma í bakið á þeim, og í versta falli almenningi.
Það versta er, að staðan á hinum almenna vinnumarkaði er einnig í hnút, og algjörlega óljóst hver framvindan verður. Verkföll hjá félagsmönnum í Starfsgreinasambandinu eru líkleg, og kröfur um 20 til 30 prósent launahækkanir, og hækkun lægstu launa upp í 300 þúsund krónur, eru á borðinu.
Stjórnvöld geta ekki staðið aðgerðarlaus hjá, og vonað það besta. Og þau hafa heldur ekki efni á því að semja af sér, og þóknast einum hópi á kostnað allra hinna. Nú eru góð ráð dýr, eins og stundum er sagt. Vonandi ekki of dýr...