Markmið Gildis-lífeyrissjóðs, með nýrri hluthafastefnu sem hefur verið samþykkt, er meðal annars að beita sér sem eigandi í félögum þar sem sjóðurinn er hluthafi, í þeim tilgangi að stuðla að „langtímahagsmunum og sjálfbærni þeirra og ábyrgum stjórnarháttum“, að því er segir í tilkynningu frástjórn sjóðsins en hún hefur samþykkt nýja hluthafastefnu Gildis. Hún markar stefnu og stjórnarhætti sjóðsins sem eiganda í félögum og fyrirtækjum sem hann fjárfestir í. „Við teljum það eitt af hlutverkum okkar hjá Gildi að stuðla að ábyrgum og góðum stjórnarháttum. Innleiðing á nýrri hluthafastefnu er hluti af því og vonum við að stjórnir félaga sem sjóðurinn hefur fjárfest í og aðilar á markaði taki vel í þessa viðleitni sjóðsins,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, í tilkynningu.
Gildir um verulegar fjárfestingar og eignir
Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.
Stefnan gildir um fjárfestingar sem sjóðurinn á verulegan eignarhlut í og bókfært virði er yfir milljarður króna. Verulegur eignarhlutur telst vera 0,5 prósent af heildareignum lífeyrissjóðsins, 5 prósent eða meira í hverju félagi eða að sjóðurinn sé meðal fimm stærstu hluthafa.
„Innlendur hlutabréfamarkaður hefur verið að stækka og eflast undanfarin ár sem leiðir til nýrra vinnubragða hagsmunaaðila á markaði, bæði hlutafélaga og ekki síður fjárfesta. Sjóðurinn er orðinn virkari hluthafi í félögum en áður og vill því axla ábyrgð til samræmis við það hlutverk. Við endurskoðun hluthafastefnunnar horfði stjórn sjóðsins meðal annars til þróunar og umræðu í Evrópu og OECD tengdri endurskoðun á reglum um stjórnarhætti og innleiðingu þeirra ásamt umræðu hagsmunaaðila hérlendis. Stjórn sjóðsins vill í takt við þá þróun leggja sitt af mörkum til þess að bæta stjórnarhætti og stuðla þannig að framþróun á innlendum hlutabréfamarkaði,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.
Leiðarljós í ákvörðunum
Hluthafastefnan er höfð að leiðarljósi við ákvarðanir lífeyrissjóðsins um fjárfestingar og segir til um það hvernig Gildi-lífeyrissjóður hyggst beita sér sem fjárfestir og hvernig sjóðurinn mun fylgja fjárfestingum sínum eftir. Í nýrri hluthafastefnu eru m.a. sett fram viðmið um upplýsingagjöf hvað varðar starfskjör og starfskjarastefnur. Jafnframt vill lífeyrissjóðurinn stuðla að auknum og gagnkvæmum samskiptum við stjórnir félaga.
Gildi-lífeyrissjóður hefur innleitt vissar breytingar á undanförnum árum í átt að bættum stjórnarháttum, s.s. með birtingu hluthafastefnu, samskipta- og siðareglum og skipan valnefndar. Á síðastliðnu ári auglýsti sjóðurinn eftir einstaklingum sem gefa kost á sér til setu í stjórnum félaga. Við val á einstaklingum sem Gildi tilnefnir og styður til stjórnarsetu fylgir sjóðurinn „faglegu ferli þar sem hæfi, menntun, þekking og reynsla er könnuð. Einnig er hugað að samsetningu hverrar stjórnar með hliðsjón af fjölbreyttri þekkingu, reynslu og kynjahlutfalli,“ segir í tilkynningu Gildis.
Gildi-lífeyrissjóður er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins og voru eignir sjóðsins í árslok 2014 um 400 milljarðar króna, að því er segir í tilkynningu. Árlega greiða til sjóðsins rúmlega fjörutíu þúsund sjóðfélagar og tæplega 200 þúsund einstaklingar eiga réttindi hjá sjóðnum. Lífeyrisþegar eru um tuttugu þúsund talsins, að því er fram kemur í tilkynningu.