Hópur Íslendinga er byrjaður að mynda stefnuskrá fyrir nýjan íslenska Íhaldsflokk sem vill meðal annars vernda íslenska þjóðmenningu, flagga fánanum í skólum, segja upp Schengen-samstarfinu, takmarka komu flóttamanna eins og kostur er, stofna þjóðvarnarlið og tryggja að íslenskt þjóðfélag skuli byggja á kristnum grunni.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu flokksins sem var opnuð í síðustu viku.
Styðja fullt sjálfstæði Ísrael
Í drögum að stefnuskrá sem birt er á síðunni segir að Íhaldsflokkurinn óstofnaði vilji vernda íslenskan þjóðmenningu, að fána lýðveldisins skuldi flaggað opinberlega í skólum og stofnunum, að íslenskt þjóðfélag skuli byggja á kristnum grunni og því skuli íslenska ríkið styðja við og vernda þjóðkirkju á Íslandi.
Styðja á fullt sjálfstæði Ísraelríkis, efla löggæslu á Íslandi til muna og stofna þjóðvarnarlið. Hópurinn vill segja upp Schengen-samstarfinu og þar af leiðandi Dyflinnarreglugerðinni, sem er ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist á millii Schengen-landa og sæki um hæli í hverju ríki fyrir sig.
Burt með Kyoto, EES og listamannalaun
Í drögunum segir enn fremur: „ Móta skal stefnu sem miðar að forsendum Íslands, innflytjendur skuli læra íslensku, kynna sér menningu landsins og taka þátt í uppbyggingu samfelagsins. Takmarka skal komu flóttamanna eins og kostur er og tryggt að þeir komi ekki sem efnahagsflóttamenn.“ Alls hafa 161 manns þegar skráð sig í hópinn á Facebook. Vert er að taka það fram að sumir þeirra sem það hafa gert eru annað hvort yfirlýstir stuðningsmenn annarra flokka eða hafa sett sig opinberlega mjög upp á móti pólitík á borð við þá sem Íhaldsflokkurinn boðar.
Í ummælum við færslu þar sem kallað er eftir hugmyndum um stefnuskrá flokksins eru ýmsar viðbótarhugmyndir viðraðar. Meðal annars uppsögn á Kyoto-bókuninni, afnám listamannalauna og uppsögn á samningnum um Evrópa Efnahagssvæðið (EES).