Píratar njóta fylgis 33 prósenta samkvæmt nýrri könnun MMR, en það mælist tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun MMR.
Stuðningur við ríkisstjórnina eykst lítillega milli kannana, fer úr 33,2% í 34,4. Það er vegna þess að fylgi Sjálfstæðisflokksins jókst milli kannana, fór úr 23,1% í síðustu könnun í 25,3% nú. Fylgi Framsóknarflokksins minnkaði hins vegar, fór úr 12,2% í 11,4%.
Samfylkingin fer upp fyrir 10% og mælist nú með 10,6% stuðning en í síðustu könnun var stuðningurinn 9,6%. Vinstri-græn fara örlítið niður á við, í 9,6% úr 10,2% í síðustu könnun.
Björt framtíð mælist með 5,8% og nær því aftur upp fyrir fimm prósenta þröskuldinn, en í síðustu könnun MMR fór fylgi flokksins niður í 4,4%.
Allar breytingar á fylgi flokkanna milli kannana eru hins vegar innan vikmarka, sem eru allt að 3,1% í hvora átt í könnun af þessari stærð, þar sem um 1000 manns eru spurðir. Það þýðir að líklegt raunverulegt fylgi flokka er á bili sem er 3,1% lægra til hærra en niðurstöðurnar gefa til kynna.