Píratar mælast enn með langmest fylgi allra flokka á Íslandi samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Ef kosið yrði í dag myndu 32,4 prósent landsmanna kjósa flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærsti flokkur landsins með 23,3 prósent fylgi og bætir við sig um teimur prósentustigum. Framsóknarflokkurinn fengi tíu prósent atkvæða samkvæmt könnuninni og tapar fylgi frá síðustu könnun MMR, sem var birt 2. júní. Um er að ræða fyrstu könnun MMR frá því að stjórnarflokkarnir kynntu áætlun um losun hafta og mögulegan stöðugleikaskatt. Hreyfing á fylgi flokka í júní var innan vikmarka.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 31,9 prósent og hefur aukist lítillega frá síðustu mælingu, þegar hann var 29,4 prósent.
Samfylkingin stendur nánast í stað frá síðustu birtu könnun. Nú segjast 11,6 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn, sem er undir kjörfylgi flokksins í síðustu kosningum. Sömu sögu er að segja af Bjartri framtíð, sem mælist nú með 6,8 prósent fylgi. Fylgi Vinstri grænna lækkar lítillega milli kannanna og er 10,5 prósent.