Ný útgáfa af íslenska spurningaleiknum QuizUp er komin út, en í henni er lögð aukin áhersla á samskipti og það að tengja notendur leiksins saman.
Í nýja leiknum er fréttaveita svipuð því sem þekkist hjá ýmsum samfélagsmiðlum þar sem hægt er að skoða uppfærslur annarra notenda. Þá er búið að bæta leitarmöguleika í leiknum. Önnur nýjung er að nú er hægt að spila spurningaleikinn í borð- og fartölvum í gegnum vefsíðuna QuizUp.com.
Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Plain Vanilla, sem gefur leikinn út, segir fyrirtækið gríðarlega spennt fyrir nýju útgáfunni af QuizUp. „Við erum búin að leggja allt okkar hugvit í þessa nýju útgáfu og þetta er því mjög stór dagur í sögu fyrirtækisins,“ segir Þorsteinn í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Svona lítur nýi leikurinn út.
Hann segir nýju útgáfuna byggja á sömu hugmynd og hafi heillað fólk við eldri útgáfu leiksins, sem kom út árið 2013, en nú sé sjónum beint að því að efla samfélagshluta leiksins. „Þar erum við að hvetja notendur til að kynnast öðrum notendum sem deila sömu áhugamálum og er eitthvað sem bætir alveg nýrri vídd við QuizUp upplifunina. Ég hvet Íslendinga til að prófa þessa nýju útgáfu og gefa okkur sitt álit. Leikurinn er að öllu leyti hannaður á Íslandi, nánar tiltekið á Laugavegi 77, þar sem vinna nú um 85 manns.“