Stjórn Nýherja hf (NYHR.IC) hefur sett 25% eignarhlut í TEMPO ehf. í söluferli. Félagið hefur ráðið Icora Partners sem umsjónaraðila, með lokuðu útboði. Þess er vænst að söluferlið muni hefjast á þriðja ársfjórðungi 2015.
Markmiðið með útboðinu er að styðja enn frekar við hraðan vöxt TEMPO ehf., með auknu fjármagni og sérþekkingu, sem mun nýtast annars vegar til að hraða vöruþróun og hins vegar til að auka markaðsstarf og styrkja uppbyggingu TEMPO vörumerkisins erlendis.
„Vöxtur og viðgangur TEMPO hefur gengið vonum framar á undanförnum árum og við höfum væntingar um að svo verði áfram.Markmiðið með sölu á minnihluta í TEMPO ehf. er að tryggja fjármagn og þekkingu til frekari vöruþróunar og enn öflugri tengsla og markaðssetningar erlendis,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja í fréttatilkynningu.
TEMPO hugbúnaðurinn er hannaður og þróaður af TEMPO ehf. (temposoftware.com). Fyrirtækið er dótturfélag Nýherja og eru höfuðstöðvar þess í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfa um 65 manns og eru starfsstöðvar þess á Íslandi og í Kanada. TEMPO er leiðandi í hugbúnaðargerð á sviði verkefna- og eignasafnsstjórnunarlausna (PPM) fyrir JIRA kerfið frá Atlassian. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru allt frá smáum sprotafyrirtækjum til Fortune 500 fyrirtækja með yfir 10.000 TEMPO notendur. Meira en 7.000 fyrirtæki í yfir 100 löndum nota hugbúnaðarlausnir TEMPO. Þar á meðal eru stórfyrirtæki á borð við Disney, eBay, Amazon, AT&T, Oracle, BMW, Dell og Pfizer. TEMPO á í samstarfi við yfir 85 Atlassian Experts um allan heim í tengslum við sölu, þjálfun og ráðgjöf á TEMPO hugbúnaðinum.
Tekjur fyrirtækisins voru 5,7 milljónir dollara, um 700 milljónir króna, á árinu 2014 og jukust um 85% milli ára. Á fyrsta ársfjóðungi ársins 2015 voru tekjur Tempo 2,2 miljónir dollara sem er 57% aukning frá síðasta ári. Erlendar tekjur námu 98% af heildartekjum fyrirtækisins þar sem 50% af þeirri upphæð kom frá Evrópu og 35% frá Norður-Ameríku, segir í tilkynningu frá Nýherja.
Kjarninn heimsótti TM Software í fyrra, en þá var TEMPO varan ekki enn orðin að sérfyrirtæki, en ör vöxtur einkenndi sölu á hugbúnaðinum á þeim tíma. Myndband um heimsóknina er meðfylgjandi.
https://vimeo.com/93353851