Hermann Jónasson, nýráðinn forstjóri Íbúðalánasjóðs, sagði upp störfum hjá Arion banka árið 2011 eftir að hafa verið sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart konum innan bankans. Starfsfólk Íbúðalánasjóðs var upplýst um þetta á starfsmannafundi um miðjan júlí, að því er greint er frá í DV.
Þar er rætt við Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur, formann stjórnar Íbúðalánasjóðs, um málið. „Við þurftum að taka af allan vafa um það að þetta hefði verið skoðað og fullvissa starfsmenn um að það væri ekkert sem ógnaði starfsöryggi þeirra á neinn hátt,“ segir Ingibjörg. Hún segir að sögusagnir hafi verið komnar af stað í sjóðnum um málið.
Greint var frá því í fjölmiðlum árið 2011 að yfirmaður í Arion banka væri kominn í leyfi eftir að fjórar konur að minnsta kosti sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu hans. Bankinn fékk utanaðkomandi aðila til að skoða málið, og maðurinn sagði svo upp störfum. Hermann var aldrei nafngreindur í fjölmiðlum vegna málsins þá.
Ingibjörg Ólöf segir að málið hafi verið skoðað til hlítar af stjórn Íbúðalánasjóðs áður en Hermann var ráðinn forstjóri. Öllum steinum hafi verið velt við og ráðning hans hafi verið samþykkt einróma af þverpólitískri stjórn.
DV ræddi einnig við Þorstein Arnalds, varaformann stjórnarinnar, og spurði hvort stjórnin hefði fengið að sjá skýrslu sem unnin var af utanaðkomandi aðila um kynferðislegu áreitnina í Arion banka. Hann segir stjórnina ekki hafa séð þá skýrslu en að bankinn hafi fullvissað hana um að ekki hafi verið fótur fyrir ásökunum á hendur Hermanni.