Hæstiréttur hefur úrskurðað að Guðjón St. Marteinsson þurfi að víkja sæti sem dómari í Aurum-málinu svokallaða, en í því eru ákærðu Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður, Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, Magnús Agnar Arngrímsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, og Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Þeir voru allir sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. júní í fyrra en niðurstaðan var ómerkt í Hæstarétti í apríl á þessu ári, og send aftur í hérað.
Töluverðar deilur sköpuðust í kjölfar þess, að fjölmiðlar fóru að spyrja hvernig á því stæði, að Sverrir Ólafsson, bróðir Ólafs Ólafssonar sem þá var meðal sakborninga í Al-Thani málinu sem hann hlaut að lokum fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir, væri að dæma í málinu í fjölskipuðum dómi. Spurt var hvort hann væri hæfur til að dæma í málinu, sökum þessarar stöðu sem Ólafur var í. Sverrir reiddist, og sagði meðal annars í viðtali við RÚV að trúverðugleiki embættis sérstaks saksóknara „væri eiginlega í molum".
Það er ekki hægt að segja annað, en að það hafi verið með eindæmum klaufalegt, og eiginlega óafsakanlegt, að hafa skipað bróður eins þeirra, sem grunaður var um stórfellda og fordæmalausa efnahagsbrotaglæpi og var til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, dómara í máli þar sem sérstakur var að ákæra. Slíkt gengur ekki upp og dregur úr trúverðugleika dómstólana.Líklega er þessu best lýst með orðinu dómgreindarleysi. Í litlu landi eins og Íslandi þarf að passa upp á þessa hluti alveg sérstaklega.
Deilur Guðjóns dómara og Ólafs Haukssonar sérstaks saksóknara, um hver sagði hvað hvenær, og hvort allir hafi vitað af tengslum Sverris og Ólafs, eru ekki aðalatriðið í því samhengi, eða í það minnsta ættu ekki að vera það.