Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) harma atvikið í gær, þegar þroskaskert átján ára stúlka gleymdis í bíl ferðaþjónustu fatlaðra, þar sem vítavert gáleysi hafi verið sýnt í starfi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum, þar sem stjórn og eigendur Strætó eru sakaðir um sinnuleysi.
„Alvarleg atvik hafa átt sér ítrekað stað og hefur fatlað fólk og hagsmunasamtök þeirra margoft bent á hættuna sem hefur verið yfirvofandi hjá ferðaþjónustunni vegna skorts á samráði, regluverki og vanhugsaðri framkvæmd. Margt af því sem upp hefur komið hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef betur hefði verið staðið að undirbúningi og ef tekið hefði verið tillit til ábendinga fatlaðs fólks, þarfa þeirra og þekkingar.
Aðgerða er þörf nú þegar og lýsa samtökin eindregnum vilja til að koma að málum.“
Eins og fram hefur komið stendur til að skipa neyðarstjórn yfir ferðaþjónustu fatlaðra í dag, undir stjórn Stefáns Eiríkssonar sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, með aðild fulltrúa ÖBÍ, Sjálfsbjargar og Þroskahjálpar.
Neyðarstjórninni verður falið að gera þær nauðsynlegu breytingar sem þurfa þykir til að gera ferðaþjónustu fatlaðra viðunandi og þá verður stjórninni falið að ráðast í sérstaka úttekt á atvikinu í gær.