Íslenska sjónvarpsþáttaserían Ófærð var seld til Bandaríkjanna fyrir 1,2 milljónir Bandaríkjadala á dögunum, eða jafnvirði 153 milljóna. Baltasar Kormákur, einn leikstjóri þáttanna, greindi frá þessu í umræðunum Er íslensk kvikmyndagerð góð fjárfesting? sem eru haldnar í tilefni af kvikmyndahátíðinni RIFF.
Ófærð er dýrasta íslenska sjónvarpsþáttaröð sem hefur verið framleidd og verður sýnd á RÚV í kringum jólin. Fyrstu tveir þættirnir verða lokamyndin á RIFF í ár. Þáttaröðin var seld til The Weinstein Company fyrr í september, en þetta er í fyrsta sinn sem íslensk þáttaröð er seld til Bandaríkjanna. Hún hefur einnig verið seld til sjónvarpsstöðva víða í Evrópu. Kostnaður við verkefnið nemur um milljarði króna.
Það er íslenska útgáfan af þáttunum sem hefur nú verið seld til Bandaríkjanna fyrir þessa upphæð, segir Baltasar. Endurgerð þáttanna sé allt önnur ella og verði gerð síðar. „Þetta er að breytast rosalega. Allt í einu er þetta vandamál með tungumálið að verða minna,“ sagði Baltasar í umræðunum í dag. Hann sagði að fyrir nokkrum árum hefði það verið óhugsandi að selja þáttaröð á íslensku á bandaríkjamarkað. „Það eru að opnast fullt af dyrum.“
Baltasar tók sem dæmi vinsæla danska þætti sem hafi verið seldir til annarra landa, og upprunalegu þættirnir voru vinsælli í Bretlandi en endurgerðin.
Baltasar sagðist oft hafa lent í miklum vandræðum með íslenska bankakerfið, meðal annars í gerð á Ófærð, þótt þættirnir hafi notið ýmissa styrkja. Það hafi vantað pening á meðan á framleiðsluferlinu stóð, styrkir og önnur fjármögnun komi inn þegar verkinu sé skilað. „Það er svo lítil þekking inni í bankakerfinu og fjármálakerfinu,“ sagði hann. Það sé svo mikið fjallað um fjárhagslegu vandamálin en ekki um það sem gangi vel. Á endanum hafi Gamma stigið inn í verkefnið með 500 milljónir króna. „Þeir eru að græða á þessu,“ sagði Baltasar. Á endanum hafi því tekist að fjármagna verkefnið upp á tæpan milljarð.
Umræðurnar eru enn í gangi og horfa má á þær hér að neðan.