Tillaga var borin upp á framkvæmdastjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir skemmstu um að flýta ætti landsfundi flokksis svo hann geti kosið sér nýja forystu í allsherjaratkvæðagreiðslu. Engin efnisleg niðurstaða varð um tillöguna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Semu Erlu Serdar, formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, að framkvæmdastjórn hafi opnað umræðu um næsta landsfund og hvenær hann verður haldinn. Til standi að halda tvo stóra flokksstjórnarfundi næstkomandi haust þar sem málið verði rætt. "Það er alveg rétt að ákveðin öfl innan flokksins vilja nýjan landsfund þar sem flokkurinn í heild sinni getur valið sér nýja forystu. Hins vegar býr flokkurinn yfir sínum lögum og reglum og nú er vinna hafin við það að meta hvaða leiðir eru færar í stöðunni," segir Sema.
Nokkrir mánuðir frá síðasta landsfundi
Síðasti landsfundur Samfylkingarinnar fór fram í mars síðastliðnum. Þar bauð Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sig fram til formanns gegn sitjandi formanni, Árna Páli Árnasyni. Þar sem framboðið barst skömmu fyrir landsfund gátu einungis landsfulltrúar kosið í formannskosningunum í stað þess að allsherjaratkvæðagreiðsla færi fram sem allir flokksmenn gætu tekið þátt í. Niðurstaðan varð sú að Árni Páll sigraði með einu atkvæði, hlaut 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 240.
Árni Páll tók við af Jóhönnu Sigurðardóttur sem formaður Samfylkingarinnar árið 2013. Árni Páll var kjörinn í allsherjarkosningu og hlaut afgerandi kosningu í baráttunni um formannsstólinn við Guðbjart Hannesson. Samfylkingin beið hins vegar afhroð í síðustu Alþingiskosningum, undir stjórn Árna Páls, þegar flokkurinn hlaut 12,9 prósent atkvæða og tapaði ellefu þingmönnum. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 11,6 prósent, eða minna en í síðustu kosningum. Og það hefur mælst stöðugt mjög lágt í öllum könnunum sem gerðar hafa verið undanfarna mánuði.
Árni Páll mælist líka með mjög lítið persónufylgi í könnunum og virðist ekki trekkja kjósendur að flokknum. Í könnun MMR sem birt var í lok apríl sögðu til dæmis þrjú prósent aðspurðra að hann væri fæddur leiðtogi. Engin stjórnmálaforingi mældist lægri í þeim flokki. Sex prósent svarenda taldi að Árni Páll skilaði árangri.
Segir Samfylkinguna verða að bregðast við ástandinu
Árni Páll var í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand um síðustu helgi. Þar sagði hann stöðu Samfylkingarinnar vera áfellisdóm yfir honum sjálfum og flokknum. Þróunin hefði byrjað með stofnun Bjartrar framtíðar og haldið áfram. „Ef þú horfir á stöðuna eins og hún er í dag og horfir á hana frá 2012 þá er það í mínum huga áfellisdómur yfir Samfylkingunni að hún skuli ekki hafa orðið vettvangur fólks sem hefur viljað fara í málefnalega nýsköpun á miðju íslenskra stjórnmála. Fyrst í Bjartri framtíð og síðan í Pírötum.“
Í þættinum sagði Árni Páll einnig að hann hefði áhuga á að sækja sér sterkari umboð sem formaður í allsherjarkosningu en að lög flokksins hamli honum að gera það. Þá sagði Árni Páll einnig að Samfylkingin yrði að bregðast við ástandinu. „Samfylkingin verður að bregðast við því með því að verða sú fjöldahreyfing sem hún var stofnuð til að vera. Hún verður að hætta að tala eins og gamaldagsflokkur, hún verður að hætta að vinna eins og gamaldagsflokkur og hún verður að leita sér fyrirmynda í lausbeisluðum fjöldahreyfingum út um allan heim.“