Hart hefur verið tekist á um vinnubrögð atvinnuveganefndar Alþingis á þingi í morgun. Stjórnarandstaðan er verulega ósátt við vinnubrögð meirihluta nefndarinnar, sérstaklega Jóns Gunnarssonar, sem er sagður vera að grafa undan bæði rammaáætlunarferlinu og umhverfisráðherranum Sigrúnu Magnúsdóttur.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður nefndarinnar, hóf umræðuna undir liðnum störf þingins við upphaf þingfundar. Hún gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð, en á fundi nefndarinnar í morgun var rætt um verndar- og orkunýtingaráætlun, einnig þekkt sem rammaáætlun. Lilja Rafney sagði að því hefði verið haldið fram að verkefnastjórn rammáætlunar væri ekki að vinna innan ramma laganna og að aðeins hafi verið fengnir á fundinn í morgun „tíu aðilar úr orkugeiranum til að kvarta“ en ekki neinir fulltrúar úr umhverfisgeiranum eins og hún og Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefðu viljað. Hún sagði þetta vera óboðlegt, verið væri að grafa undan trúverðugleika verkefnisstjórnarinnar og alls ferlisins í kringum rammaáætlun.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði Jón Gunnarsson fara í það skipulega að grafa undan trúverðugleika rammaáætlunar og verkefnisstjórnarinnar. „Hvaða vinnubrögð eru þetta?“ Hún sagðist einnig vera hugsi yfir stöðu Sigrúnar Magnúsdóttur, núverandi umhverfis- og auðlindaráðherra. Hún sagði verið að grafa undan ráðherranum með þessum vinnubrögðum.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort ekki væri verið að grínast með vinnubrögðunum og Steingrímur J. Sigfússon sagði að kannski væri verið að leggja upp í annan vetur þar sem vinnubrögð Jóns Gunnarsson verði „að stórfelldu og sjálfstæðu vandamáli hér í þingstörfunum.“ Seinna kom hann svo upp og sagði ríkisstjórnina, og Jón, hafa átt upptökin að ófriði í þessum málum. Hann væri ófriðarhöfðingi.
„Hefst nú þetta leikrit enn og aftur,“ sagði Jón Gunnarsson þegar hann svo kom í ræðustól. Hann sagði að komið hefðu fram fyrir nefndinni alvarlegar athugasemdir um að ekki sé verið að fara að lögum um rammaáætlun, meðal annars úr orkugeiranum, og það væri eðlilegt að yfir það væri farið. Hann sagði að formaður verkefnisstjórnarinnar hefði sjálfur sagt að farið hefði verið út fyrir lögin í vinnu nefndarinnar.
Meðal þeirra þingmanna sem komu fram og studdu málflutning Jóns var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún sagði að umræðan sem hefði átt sér stað sýndi að það yrði að breyta einhverju í sambandi við löggjöfina í kringum rammaáætlun. „Það hryggir mig að það megi ekki halda fund til þess að ræða það hvernig í ósköpunum við getum reynt að ná saman um þessi mál hér án þess að hlutirnir fari á hvolf hér.“
Árni Páll Árnason sagði Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vera að taka þátt í því að grafa undan Sigrúnu Magnúsdóttur og málaflokknum, og Katrín Jakobsdóttir tók undir þetta. Þau voru bæði þeirrar skoðunar að það hefði verið myndarbragur á því þegar Sigrún lýsti því yfir fyrir skömmu að hún myndi ekki gera tillögur að neinum breytingum á rammaáætlun heldur hefði hún tröllatrú á ferlinu í kringum málaflokkinn og vildi bíða tillagna frá verkefnisstjórninni.