Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata gerði störf þingsins að umræðuefni undir samnefndum lið á Alþingi í dag. Hann sagði að það virtist vera mikill misskilningur hjá fólki almennt að þegar talað væri um minnihluta og meirihluta, sem væri vissulega ákveðin staðreynd á þingi, þá væri „það samt ekki satt“.
„Hér eru flokkar sem taka sér dagskrárvald og flokkar sem hafa bara aðgang að ræðustól þingsins. Það snýst ekki um meirihluta og minnihluta því að í raun skipta atkvæði minnihlutans engu máli. Það er dagskrárstjórnunin, dagskrárvaldið, sem skiptir öllu máli. Þetta er 100 prósent gegn 0 prósent, ekki meirihluti og minnihluti,“ sagði hann.
Setti hann þetta í samhengi við skipulagsbreytingu á þinginu, til að mynda styttingu vinnuvikunnar. „Nú er staðan þannig að það eru þingfundir til klukkan 8 flesta daga. Ekki á föstudögum, en þeir geta staðið til miðnættis á þriðjudögum. Það er alveg gríðarlega óhagkvæmt umhverfi til að vinna í upp á vinnuskorpur og ýmislegt slíkt í staðinn fyrir að meira jafnvægi væri í þessu daginn út og inn og árið fram og til baka.“
Björn Leví vildi beina því til þingmanna að þeir hugsuðu á komandi vikum, þegar þeir væru að reyna að koma saman starfsáætlun þingsins, um hið innra skipulag vikunnar og ójafnvægið á milli þeirra sem taka sér dagskrárvaldið og hinna sem þyrftu að reyna að „vinna innan þeirrar kúgunar“.
„Ef einhverjir taka sér meirihlutavaldið, taka sér 100 prósent dagskrárvald, þá er það þeirra að byrja að vera málefnalegir,“ sagði hann.
Vill skjá fyrir þingmenn svo þeir geti „horfst í augu við þjóð sína“
Jakob Frímann Magnússon þingmaður Flokks fólksins fjallaði einnig um störf þingsins í sinni ræðu undir sama lið.
„Ég vil ræða störf þingsins og með hvaða hætti við getum bætt okkur í þeim efnum. Og þá er það nú fyrst og fremst á tæknilega sviðinu. Ég hefði talið að margir þeirra sem hér koma í pontu með skrifaðar ræður – sérstaklega þegar við erum í beinni útsendingu sem þjóðin getur fylgst með og gerir kannski meira en okkur grunar – að þá væri meiri myndarbragur yfir því ef menn gætu horft upp úr ræðunni ef það væri einhvers konar „promter“ eða skjár, til dæmis hér beint á móti sem menn gætu lesið af tölvunni af slíkum skjá og horfst í augu við þjóð sína á meðan þeir flytja mál sitt og vonandi með enn meira sannfærandi hætti.“
Hann sagði að allir sem hefðu verið í útsendingum í sjónvarpi eða ráðstefnum þekktu. „Þetta er tiltölulega viðtekinn nútímalegur máti og þá sömuleiðis ef menn vilja leggja sérstaka áherslu á mál sitt og gera það með myndarbrag að geta gripið til stoðtækja á borð við skjá á vegg tengdan við tölvu með áhersluatriðum í máli og myndum. Þetta get ég fullyrt af eigin raun að hefur gert ræður margra eftirminnilegri, skýrari og skemmtilegri.“
Hann lagði enn fremur til að Alþingi myndi fjölga útsendingarvinklum.