Ólafía B. Rafnsdóttir verður áfram formaður VR næstu tvö árin, þar sem ekkert mótframboð barst gegn henni í formannsstólinn. Hún telst því sjálfkjörin. Framboðsfrestur til formanns og stjórnar rann út á hádegi í dag.
Alls bárust ellefu framboð til stjórnar en listi yfir frambjóðendur verður birtur á mánudag þar sem þrír frambjóðendur fengu frest til að laga annmarka á framboðum sínum. Kosningar til stjórnarinnar hefjast 5. mars næstkomandi, en sjö stjórnarmenn eru kjörnir í stjórn VR.
Ólafía hefur verið formaður VR undanfarin tvö ár. Hún fór fram gegn sitjandi formanni, Stefáni Einari Stefánssyni, og hlaut 76% atkvæða en Stefán Einar 24%. Hún er fyrsti kvenformaður VR, og hún er jafnframt varaforseti ASÍ.
Áður en hún varð formaður VR var hún framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá 365 miðlum. Hún hefur einnig starfað hjá Tal og Islandia Internet, og hún hefur verið kosningastjóri Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands.