Ólafur Ólafsson, sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða fyrr í þessum mánuði, hefur hafið afplánun. Þetta kemur fram á vef DV. Samkvæmt frétt DV óskaði Ólafur sjálfur eftir því að hefja afplánun og hóf hana í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg. Hann hefur nú verið fluttur til afplánunar á Kvíabryggju.
Ekki náðist í Pál Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar, við vinnslu fréttarinnar til að staðfesta þetta.
Ólafur var mjög ósáttur við dóminn yfir sér og í síðustu viku ásakaði hann íslenska stjórnmálamenn um að gera bankageirann að blóraböggli fyrir þeirra eigin mistökum. „Ég held að dómararnir hafi fyrst ákveðið hver útkoman ætti að vera og svo skrifað dóminn,“ segir Ólafur í samtali við Reuters fréttastofuna.
„Ísland er mjög lítil land…Veggirnir á milli stjórnmálamanna og embættismanna eru þunnir. Stjórnmálamennirnir ákváðu að setja allan fókus á bankageirann, en að rannsaka ekki það sem aflaga fór í efnahagskerfinu, sem er á þeirra ábyrgð“.
Boðaði að hann ætlaði að mæta í afplánun
Ólafur, sem býr í Sviss, sagði að hann muni snúa aftur til Íslands þegar hann verði boðaður til afplánunar. Það væri ekki gott að stinga hausnum í sandinn eins og strútur heldur þyrftu menn að mæta þeim áskorunum sem lífið kasti að þeim.
Ólafur hefur tilkynnt að hann ætli að vísa máli máli sínu til Mannréttindadómstóls Evrópu en viðurkenndi í samtalinu við Reuters að hann sé ekki vongóður um að málið verði tekið þar fyrir. Slík fyrirtaka hefur engin áhrif á þann dóm sem Ólafur hefur hlotið.
Alvarlegasta efnahagsbrot Íslandssögunnar
Dómur Hæstaréttar í Al Thani málinu féll fyrr í þessum mánuði. Þar voru allir sakborningar dæmdir sækir. Þeir eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Í dómi Hæstaréttar um ákvörðun refsingar segir m.a.: „Háttsemi ákærðu samkvæmt þessum köflum ákæru fól í sér alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart stóru almenningshlutafélagi og leiddi til stórfellds fjártjóns. Brotin samkvæmt III. og IV. kafla ákæru beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild og verður tjónið, sem leiddi af þeim beint og óbeint, ekki metið til fjár. Þessi brot voru stórum alvarlegri en nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot.“