„Það er óhjákvæmilegt, á þessari öld og reyndar líka á þeirri síðustu, að þjóðhöfðingjar taki þátt í að efla velferð og hagsæld og framfarir sinnar þjóðar,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali hjá Sölva Tryggvasyni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gær. Umfjöllunarefni þáttarins var „íslensk nýsköpun í útrás“ og spurði Sölvi forsetann hvort hann sé varkárari en fyrir hrun við að greiða götur íslenskra fyrirtækja erlendis eða hvort hann líti á það sem mikilvægt hlutverk forsetaembættisins. „Við sjáum líka þjóðhöfðingja á Norðurlöndum og annars staðar gera þetta í ríkum mæli. Margrét Danadrottning fer í heimsókn til dæmis til Asíu, það eru margir tugir aðila úr dönsku viðskiptalífi sem fylgja henni. Þegar Svíakonungur fer í heimsókn til Suður-Ameríku eru öll stærstu fyrirtæki Svíþjóðar með í för,“ sagði forsetinn.
Ólafur Ragnar sagði að menn átti sig á að samkeppni í veröldinni sé ekki bara milli fyrirtækja heldur líka milli þjóða. „Þjóðhöfðingar geta opnað dyr og greitt leiðir. Sá þjóðhöfðingi sem sæti og segðist bara sinna ákveðnum sviðum, menn þyrftu helst að vera menningarforkálfar til þess að ég telji mér sóma til að tala við þá, ég er ekki tilbúin að hjálpa ungu fólki sem er að reyna að feta nýjar brautir á vettvangi viðskipta, og þeim mun kannski mistakast og ég verð þá gagnrýndur fyrir það, það væri að mínum dómi allt of þröng sýn á forsetaembættið,“ sagði forsetinn.
Spurður hvort hann myndi gera eitthvað örðuvísi í dag en áður, sagðist Ólafur Ragnar ekki geta svarað því og að hann hafi ekki farið yfir það. „Auðvitað var þessi reynsla mikilvæg bæði fyrir mig og aðra. Maður horfir þá kannski gagnrýnni augum á ýmislegt sem menn eru að gylla.“
Gagnrýndur í Rannsóknarskýrslunni
Í 8. hefti rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 er kafli um hlut forseta Íslands í aðdraganda hrunsins. Í skýrslunni er Ólafur Ragnar gagnrýndur fyrir sinn þátt. Sagt er að forsetaembættið hafi óspart verið nýtt í þágu einstakra aðila til að koma á tengslum víða um lönd. „Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki. Forsetinn kom ekki að stjórnvaldsákvörðunum en hann ber ásamt fleirum siðferðilega ábyrgð á því leikriti sem leikið var í kringum foringja útrásarinnar og fyrirtæki þeirra. Þau reyndust ekki vera í neinu frekar en keisarinn í sögu H.C. Andersen,“ segir í 8. hefti skýrslunnar. Lærdómar sem dregnir eru fram í ályktunarkafla í skýrslunni eru eftirtaldir:
• „Skýra þarf hlutverk forseta Íslands mun betur í stjórnarskránni.
• Setja þarf reglur um hlutverk og verkefni forseta Íslands og samskipti hans við önnur ríki.
• Æskilegt væri að forsetaembættið setti sér siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning.“