Þungir fangelsisdómar Hæstaréttar yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, Sigurði Einarssyni, fyrrum starfandi stjórnarformanni Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg og Ólafi Ólafssyni, sem var einn stærsti eigandi bankans fyrir hrun, hafa víðar vakið mikla athygli en á Íslandi.
Reuters fréttastofan birtir frétt þar sem málavextir eru raktir. Þar er meðal annars rætt við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, og haft eftir honum að Al-Thani málið „sendir sterk skilaboð sem mun vekja upp umræðu. Það sýnir að þessi efnahagsbrotamál geta verið erfið, en þau geta líka leitt af sér árangur“.
Ólafur segir að það séu minni líkur en meiri á því að sambærileg mál komi upp í framtíðinni. Það séu sýnilegar vísbendingar um að íslenskir bankar fari varlegar en áður, enda sé búið að senda út sterk skilaboð um hvað sé glæpsamlegt athæfi“.
Aðspuður hvort hann myndi taka aftur við starfi sérstaks saksóknara ef honum yrði boðið það í dag og vitandi hversu flóknar rannsóknirnar og málflutningurinn yrði sagði Ólafur: „Já. Og ég yrði örugglega eini umsækjandinn aftur“.