Ólga er innan stjórnar RÚV vegna uppsagna tveggja starfsmanna Rásar 1 snemma í júlí og því sem hluti stjórnarmanna vill meina að sé stefnubreyting hjá Rás 1. Þrír stjórnarmenn, Björg Eva Erlendsdóttir, Mörður Árnason og Friðrik Rafnsson, hafa farið fram á skýringar á uppsögnunum. Þremenningarnir, sem sitja fyrir hönd stjórnarandstöðuflokka í stjórn RÚV, hafa einnig farið fram á skýringar á því sem þau telja að sé stefnubreyting á starfsemi Rásar 1. Þau telja að slíka breytingu verði að ræða innan stjórnar. Vegna þessa hafa þau Björg Eva og Mörður krafist þess að aukafundur verði boðaður í stjórn RÚV. Við þeim kröfum hefur ekki verið orðið.
Níu sitja í stjórn RÚV. Sex þeirra sitja í umboði stjórnarflokkanna tveggja en Vinstri grænir, Samfylking og Björt framtíð eiga einn fulltrúa hver.
Vildu láta draga uppsagnirnar til baka
Síðasti stjórnarfundur RÚV var haldinn 6. júlí 2015. Nokkrum dögum síðar var þeim Hönnu G. Sigurðardóttur og Sigríði Stephensen, sem starfað höfðu hjá Rás 1 um árabil, sagt upp störfum. Uppsagnirnar vöktu hörð viðbrögð hjá minnihluta stjórnar RÚV. Björg Eva sagði við Stundina að þær væru augljóst brot á jafnréttis- og mannauðsstefnu RÚV og því væri um stefnubreytingu að ræða. Slíka þyrfti að ræða innan stjórnar Rúv.
Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hafnaði ávirðingum um að uppsagnir þeirra væru liður í því að gjörbreyta starfsemi Rásar 1 í samtali við Eyjuna skömmu síðar. Hann sagði að breytingarnar miðuðu að því að styrkja ákveðna efnisþætti, bæði í fréttatengdri umfjöllun og menningarumfjöllun. Einnig sé alltaf nokkur hreyfing á starfsfólki hjá Rás 1 og að slík hreyfing væri nauðsynleg á lifandi miðli.
Björg Eva segir í samtali við Kjarnann að í kjölfar uppsagnanna hafi verið farið fram á aukafund í stjórn RÚV og þess krafist að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka þar til að sá fundur hefði farið fram, en samkvæmt dagskrá á næsti stjórnarfundur ekki að vera fyrr en 26. ágúst. Fundinn vildu fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í stjórn RÚV fá til að óska skýringa á uppsögnum dagskrárgerðarmannanna tveggja og því sem þeir telja að sé stefnubreyting á starfsemi Rásar 1. Þessar beiðnir hafa verið sendar á stjórn, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra og framkvæmdastjórn RÚV en það hafi ekki skilað neinum árangri.
Í fyrradag boðaði Ingvi Hrafn Óskarsson, stjórnarformaður RÚV, að næsta reglulega fundi verði flýtt um viku og að hann fari fram 19. ágúst. Björg Eva kemst ekki á þann fund og segir það ósvífið að hafna beiðni sinni um aukafund með þeim rökum að efnið sem vilji var til að ræða væri ekki á verksviði stjórnar en flýta síðan reglulegum fundi með skömmum fyrirvara. „Það verður til þess að fundarbeiðandinn, ég, fæ hvorki fundinn sem ég bað um og á rétt á samkvæmt lögum né kemst á reglulegan fund,“ segir Björg Eva.