Drykkjarvörur og fleiri vörur frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar hækka um 2,9 prósent að meðaltali frá 3. ágúst næstkomandi og kleinur, flatkökur, brauð og fleiri vörur frá Ömmubakstri / Gæðabakstri hækka um 5,2 prósent frá morgundeginum, 15. júlí 2015. Ástæðan er í báðum tilvikum sögð launahækkanir. Auk þess segir Ölgerðin ástæðuna vera „ýmsar kostnaðarhækkanir“ og Ömmubaksturs segir verðhækkanir á umbúðum og á aðkeyptri vinnu valda hækkunum. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Neytendasamtakanna, sem halda utan um verðbreytingar frá birgjum til verslana.
„Neytendasamtökin hafa fylgst grannt með verðhækkunum á matvörum frá birgjum og sagt frá hækkunum jafnóðum og samtökin frétta af þeim. Birgjar eru þeir aðilar sem selja verslunum aðföng og þeim ber ekki skylda að tilkynna sérstaklega um verðbreytingar, nema að sjálfsögðu til þeirra sem eru í beinum viðskiptum við þá. Hér á landi á að ríkja samkeppni með frjálsu verðlagi, samkeppnin t.d. á matvörumarkaði er þó mjög fábrotin og því mikilvægt að neytendur fylgist vel með verðlagi og veiti verslunum aðhald,“ segja Neytendasamtökin.
Samkvæmt töflu yfir verðbreytingar birgja frá 1. maí síðastliðnum eru nýgerðir kjarasamningar helsta ástæða verðhækkana frá birgjum. Verðhækkanir á þessu tímabili eru allt frá 1,5 prósentum til 15 prósent, mestar hjá Góu-Lindu sælgætisfyrirtæki. Önnur fyrirtæki sem hafa hækkað verð til verslana eru Nói Siríus, Myllan, Sláturfélag Suðurlands, Vífilfell, ÍSAM og Kökugerð HP.
Velt út í verðlag
Verslanir bregðast við verðhækkunum frá birgjum með því að hækka vöruverð. Kostnaðarhækkunum er þannig velt út í verðlagið, að einhverju eða öllu leyti. Áhrif hækkana, ef fram fer sem horfir, mun gæta í verðbólgumælingum á næstu misserum.
Greiningaraðilar búast við að verðbólga aukist töluvert á næstu mánuðum. Til dæmis spáir greining Íslandsbanka því að verðbólgan verði 3,3 prósent í árslok. Greiningardeild Arion banka telur að verðbólgan verði 2,4 prósent í október næstkomandi, meðal annars vegna „myndarlegra verðlagshækkana“.
Þó er ekki búist við miklum almennum hækkunum á verðlagi milli júní og júlí. Greining Íslandsbanka því að vísitala neysluverðs hækki um 0,1 prósent milli mánaðanna. Það myndi þýða að verðbólga, sem er tólf mánaða hækkun vísitölunnar, hækki úr 1,5 prósentum í 1,8 prósent. Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysðuverðs lækki milli júní og júlí um 0,2 prósent, einkum vegna áhrifa sumarútsala. Engu að síður mun matarkarfan hækka lítillega, samkvæmt spá deildarinnar. „Nýverið hafa komið fram tilkynningar frá birgjum um verðhækkanir á ýmsum vörum vegna kjarasamninga, hækkunar á hráefni og annars kostnaðar. Okkar mat er að hækkun á ýmsum matvörum eins og gosdrykkum, sælgæti, brauði, grænmeti og kjötvörum komi fram í mælingunni nú í júlímánuði. Þó vegur á móti að einhver lækkun kann að verða á kjötvörum vegna offramboðs sem kann að myndast eftir nokkurn kjötskort undanfarið vegna verkfalla,“ segir í nýrri verðbólguspá deildarinnar.
Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir júlímánuð þann 23. júlí næstkomandi.