Skýrsla þriggja manna óháðs starfshóps um fjárhagsstöðu RÚV er tilbúin og var afhent ráðherra fyrir mörgum vikum en hefur af einhverjum ástæðum ekki verið birt. Þetta segir Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
„Það er sérkennilegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að almenningur fái ekki aðgang að skýrslu um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins sem a.m.k. á tyllidögum og í auglýsingum er sagt „okkar allra“ sem með góðu eða illu greiða nefskatt í formi útvarpsgjalds til að standa undir rekstrinum,“ segir Óli Björn.
Í greininni fjallar Óli Björn um komandi landsfund Sjálfstæðisflokksins og segir skýrsluna hafa getað komið sér vel við mótun stefnu flokksins. Fyrir landsfund liggur tillaga allsherjar- og menntamálanefndar um fjölmiðla. Hann segir að það yrðu vonbrigði ef hún fæst samþykkt en tillagan segir orðrétt:
„Fjölmiðlun er afar mikilvæg í lýðræðisþjóðfélagi og einkareknir fjölmiðlar þurfa að hafa burði og jafnræði til að sinna mikilvægu hlutverki í samkeppni við Ríkisútvarpið. Mikilvægt er að varðveita menningararf þann sem Ríkisútvarpið ohf. hefur umsjón með og gera efni í eigu stofnunarinnar aðgengilegt almenningi.“
Hann segir ekki hægt að skilja tillöguna öðruvísi en að slá eigi skjaldborg um Ríkisútvarpið og að tónninn sé annar en í ályktun landsfundar 2013. Þá sagði:
„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“
Að sögn Óla Björns hefur endurskilgreining á „þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil“ ekki farið fram, tæpum þremur árum eftir að landsfundur taldi það nauðsynlegt. Ástæða þess sé óljós en „krónísk fjárhags- og rekstrarvandræði“ RÚV hafi orðið til þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði þriggja manna starfshóp. Hann hafi nú lokið vinnu sinni.