Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, telur ólíklegt að milljón erlendir ferðamenn hafi komið til landsins á síðasta ári, eins og margar spár gerðu ráð fyrir að myndi gerast á nýliðnu ári. Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Björgólfur telur allar líkur á að milljóna ferðamanna markmiðinu hafi ekki verið náð á síðasta ári, en það hafi staðið tæpt.
Björgólfur telur að erlendu ferðamennirnir hafi náð að verða 980 þúsund talsins á síðasta ári, og því hafi litlu munað. Samtök ferðaþjónustunnar áætla að allt að 60 þúsund ferðamenn hafi komið til landsins í desember. Mikil aukning hefur orðið í fjölda ferðamanna á þessum árstíma. Spreningin í fjölda ferðamanna í desember virðist því ekki hafa dugað til að ýta ferðamannafjöldanum upp fyrir milljónamarkið.