Vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun er engin framleiðsla á heitu vatni í virkjuninni sem stendur, samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu frá Veitum. Það þýðir að heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins er skert um að minnsta kosti 20 prósent.
Í fréttatilkynningu Veitna segir að af þessum sökum þurfi að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu í dag og að vonast sé til að lokunin vari einungis út daginn. Reyndar er opið í sundlauginni á Seltjarnarnesi, en Hitaveita Seltjarnarness sér henni fyrir heitu vatni.
Fram kemur í tilkynningu Veitna að teymi frá Orku Náttúrunnar sé komið á staðinn og viðgerð sé hafin.
Fyrsta kuldakast vetrarins gengur nú yfir og höfðu Veitur áður gefið það út að mögulega yrði einhverjum sundlaugum lokað vegna álags á flutningskerfi hitaveitunnar.
Þær sundlaugar sem Veitur skoðuðu að loka vegna áskorana í flutningskerfum voru Sundhöll Reykjavíkur, Vesturbæjarlaug, Dalslaug, Suðurbæjarlaug og Ásvallalaug, en ekki hafði enn komið til lokana vegna álagsins.
Vegna bilunarinnar sem nú er í Hellisheiðarvirkjun hefur þó verið gripið til þess ráð að loka næstum hverri einustu sundlaug á höfuðborgarsvæðinu, en alls eru þær 18 talsins.
Fréttin var uppfærð með tilliti til þess að sundlaugin á Seltjarnarnesi er opin í dag, en áður sagði að öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins hefði verið lokað.