Ólöf Nordal innanríkisráðherra segist taka úrskurð Persónuverndar frá því á föstudag, líkt og álit Umboðsmanns Alþingis, „mjög alvarlega“, þar sem íslensk stjórnsýsla verði að geta meðhöndlað upplýsingar um einstaklinga með faglegum hætti. Aðspurð, segist hún ekki líta svo á að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi brotið gegn lögum, hún hafi verið í góðri trú. „Það skorti heimildir og formfestu, enda um viðkvæm mál að ræða. Ég tek þessum málum mjög alvarlega, og það er augljóst við þurfum að auka formfestu innan stjórnsýslunnar þegar kem að meðhöndlun upplýsinga um einstaklinga,“ segir Ólöf.
Í úrskurði Persónuverndar, sem Kjarninn birti fyrstur fjölmiðla á föstudag, kemur fram að Sigríður Björk braut lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur greinargerð um hælisleitandann Tony Omos og fleiri.
Þá studdist beiðni Gísla Freys ekki við viðhlítandi lagaheimildir um miðlun persónuupplýsinga, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Þá er Útlendingastofnun gagnrýnd fyrir að hafa ekki gætt viðunandi öryggis við miðlun framburðarskýrslu Tony Omos til innanríkisráðuneytisins.
Í úrskurðarorði segir:
Miðlun Lögreglunnar á Suðurnesjum á skýrsludrögum með persónuupplýsingum um Tony Omos, Evelyn Glory Joseph og fleiri einstaklinga til innanríkisráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013, sem og beiðni ráðuneytisins þar að lútandi, studdist ekki við viðhlítandi heimild.
Skortur á skráningu um miðlun draganna í málaskrá lögreglunnar á Suðurnesjum, sem og um öflun þeirra í málaskrá innanríkisráðuneytisins, fór í bága við kröfum um upplýsingaöryggi. Hið sama gildir um skort á skráningu um mótttöku ráðuneytisins hinn 20. nóvember 2013 á framburðarskýrslu Tony Omos frá Útlendingastofnun.
Ekki var gætt viðunandi öryggis við miðlun fyrrnefndra skýrsludraga til ráðuneytisins frá Lögreglunni á Suðurnesjum og fyrrnefndrar framburðarskýrslu frá Útlendingastofnun til ráðuneytisins.
Úrskurður Persónuverndar er dagsettur 25. febrúar, en undir hann ritar meðal annars Björg Thorarensen, lagaprófessor, sem er stjórnarformaður Persónuverndar.
Ólöf segir að athugasemdir, sem fram hafi komið í málinu, allt frá upphafsstigum, séu alvarlegar enda undirliggjandi það atriði að einstaklingar verði að geta treyst stjórnsýslunni þegar kemur að meðferð upplýsinga. „Það er ýmislegt sem við þurfum að fara í gegnum, t.d. er varðar aðstoðarmenn ráðherra og hvernig þeir eiga að fara með gögn almennt og eftir hvaða verkferlum á að vinna. Þessi vinna er þegar komin af stað og mikilvægt að hún verði unnin faglega. Ég hef talað mjög eindregið fyrir því að formfestan varðandi þessi mál öll verði aukin, eins og áður segir, og stjórnsýslan þar með bætt,“ segir Ólöf.