Mikil umræða hefur átt sér stað um hleranir hér á landi frá því að dómur féll í svokölluðu Imon-máli 3. júní síðastliðinn, en í því voru Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, og Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri, sýknuð. Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi yfirmaður verðbréfamiðlunar bankans, var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið. Líklegt er að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar en endanleg ákvörðun um það liggur ekki fyrir að hálfu sérstaks saksóknara.
Það sem helst hefur orðið tilefni til umræðu, ekki síst meðal lögmanna, eru forsendur dómsins þar sem vikið er að hlerunum embættis sérstaks saksóknara á símtölum ákærðu.
Orðrétt segir í dómnum: „Með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð sakamála bar rannsakanda að láta af símhlustun og stöðva upptöku þegar ljóst var að um var að ræða samtal milli ákærðu og verjenda þeirra. Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 85. gr. sömu laga bar jafnframt að farga upptökum símtalanna þegar í stað. Hvorugt var gert og fólu framangreindar rannsóknaraðgerðir, eins og að þeim var staðið, í sér brot gegn tilvitnuðum ákvæðum laga um meðferð sakamála.“
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_06_19/12[/embed]
Fleiri tilvik
Lögmenn margra þeirra sem hafa verið til rannsóknar vegna mála sem tengjast efnahagshruninu hafa áður kvartað yfir því hvernig staðið hefur verið að hlerunum. Hörður Felix Harðarson hrl., lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, hefur verið í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt hvernig að þessu hefur verið staðið. Hann fékk sjálfur að hlusta á hleruð símtöl sérstaks saksóknara sem voru tekin upp og geymd og voru þar á meðal símtöl Harðar við Hreiðar Má. Þetta var það sama og var uppi á teningnum í Imon-málinu og dómari dæmdi ólölegar rannsóknaraðferðir. Ljóst er því að sambærileg atvik þeim sem dæmd hafa verið ólögmæt í héraði hafa komið upp áður.
Kjarninn beindi fyrirspurnum um þessi mál til embættis sérstaks saksóknara í mars síðastliðnum eftir að upplýsingar bárust til ritstjórnar um að samtöl blaðamanna við suma þeirra sem hefðu verið til rannsóknar hefðu verið hleruð og þau geymd. Samkvæmt svörum frá embættinu var tekið fram að svo væri ekki, það er að samtöl blaðamanna við fólk væru ekki hleruð og geymd. Lögð væri áhersla á það að afla aðeins upplýsinga um það sem máli skipti, öðru væri eytt. En í ljósi þess hvernig hlerunin færi fram væri óhjákvæmilegt að símtöl sem vörðuðu annað en málið sem til rannsóknar væri gætu verið hleruð af starfsmönnum embættisins. Þeim bæri hins vegar að eyða öllu sem ekki tengdist málinu, og þá væri óheimilt að hlera símtöl milli lögmanna og þeirra sem til rannsóknar væru. Í einhverjum tilvikum kynni að hafa orðið misbrestur á þessu, en þá hefði verið brugðist við því og öllu efni eytt sem þyrfti að eyða.
Líka í rauntíma
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur auk þess svarað því til að ekki sé hlerað í rauntíma heldur séu tekin upp öll samtöl, á grundvelli dómsúrskurðar þar sem heimildartímabil til hlerunar er tiltekið, og síðan fari starfsmenn sérstaks saksóknara í gegnum þau eftir á og meti hvað eigi erindi við málið og hvað ekki. Samkvæmt heimildum Kjarnans er þessi lýsing ekki alls kostar rétt. Í mörgum tilvikum hafa starfsmenn embættisins hlerað símtöl í rauntíma og hafa getað fylgst með því í gegnum tölvukerfi hvenær sá sem heimilt er að hlera hefur átt samtöl í síma. Það er ekkert annað að gera en að setja heyrnartólin á höfuðið og hlusta á það sem fram fer.
Ríkissaksóknari skoðar málið
Ríkissaksóknari hefur haft starfsaðferðir embættis sérstaks saksóknara til skoðunar og rannsóknar í nokkuð langan tíma, ekki síst vegna síendurtekinna kvartana lögmanna yfir starfsaðferðum þegar kemur að hlerunum. Fyrrnefndur Hörður Felix hefur átt í formlegum samskiptum við ríkissaksóknara vegna þessara mála fyrir hönd Hreiðars Más og krafist þess að ólöglegum hlerunum verði hætt hið snarasta, og hefur einnig fært fyrir því rök fyrir dómi að þessar ólöglegu aðgerðir saksóknara eigi að vera næg ástæða til þess að vísa málum á hendur Hreiðari Má frá dómi. Grafalvarlegt sé að beita ólölegum rannsóknaraðferðum í málum og það eigi að nægja til þess að láta mál niður falla.
Eins og áður segir hefur sérstakur saksóknari alfarið hafnað þessu, telur hleranirnar ekki vera neina ástæðu til þess að vísa málum frá eða fella niður mál.
Þetta er brot úr umfjöllun Kjarnans um hleranir sérstaks saksóknara. Lestu hann í heild sinni hér.