Nýtt frumvarp frá þingmönnum Samfylkingarinnar kveður á um að ráðherrum verði óheimilt að veita styrki og framlög til þeirra málaflokka sem þeir bera ábyrgð á allt að átta vikum fyrir kosningar. Að mati flutningsmanna frumvarpsins er slík ráðstöfun ólýðræðisleg og felur hún í sér misnotkun á aðstöðu ráðherranna.
Borið á miklum fjárveitingum fyrir kosningar
Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en allir hinir þingmenn flokksins eru einnig flutningsmenn. Samkvæmt greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu hefur borið á því að ráðherrar hefji úthlutanir til einstakra mála í stórum stíl allt fram að kjördegi til að vekja athygli á sér og sínu framboði.
Stundin greindi frá aðgerðum ráðherra á síðustu dögum fyrir kosningar, en margar þeirra fólu í sér töluverð fjárútlát fyrir ríkissjóð. Þar má nefna 25 milljóna króna styrkveitingu Svandísar Svavarsdóttur fyrrum heilbrigðisráðherra til Píeta samtakanna, auk 13 milljóna króna styrks til Sjúkrahússins á Akureyri.
Þá stofnaði Ásmundur Einar Daðason, fyrrum félags- og barnamálaráðherra, styrktarsjóð sem mun greiða 10 milljónir króna árlega til Íþróttasambands fatlaðra næstu þrjú árin. Hann gerði einnig þriggja ára samning við Píeta samtökin um 25 milljóna króna framlög á næstu þremur árum, auk þess sem hann sagði að 134 milljóna króna stofnframlag yrði veitt til Lýðháskólans á Flateyri fyrir byggingu stúdentagarða.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum dómsmálaráðherra, tilkynnti einnig að Landhelgisgæslan hefði fest kaup á nýju varðskipi, Freyju, í september, en kaupvirði þess nam rúmum 1,7 milljörðum króna. Þar að auki tilkynnti hún á svipuðum tíma að bygging nýs flugskýlis fyrir Landhelgisgæslu Íslands myndi hefjast í vetur, en hún er talin munu kosta 696 milljónir króna.
Ráðherrar nýti sér forréttindastöðu
Þingmenn Samfylkingarinnar gagnrýna þessar úthlutanir stuttu fyrir kosningar, en í greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu sögðu þeir það vera „ólýðræðislegt að svo sé farið með almannafé og aðstaða sé misnotuð með þessum hætti.“ Samkvæmt þeim er hætta á því að sitjandi ráðherrar nýti sér forréttindastöðu sína til að afla sér hylli kjósenda, bæði með aðgangi að fjölmiðlum og opinberu fjármagni.
Því ætti ráðherrunum að vera óheimilt að veita tilfallandi styrki og framlög til verkefna sem varða þá málaflokka sem þeir beira ábyrgð á átta vikum fyrir auglýstan kjördag. Samkvæmt þingmönnunum er tilgangurinn með þessum lagabreytingum þríþættur. Í fyrsta lagi er þeim ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að efast um tilgang fjárveitinga ráðherranna rétt fyrir kosningar, en í öðru lagi ættu þær einnig að sjá til þess að jafnræðis sé gætt á milli móttakenda hins opinbera fjármagns. Þar að auki ættu þær að takmarka misvægi aðstæðna frambjóðenda til Alþingis.