Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gaf út óræða yfirlýsingu um framhald sitt á forsetastóli í ræðu sinni við þingsetningu í dag.
Ólafur Ragnar sagði í ræðunni „þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir.“ Margir hafa litið svo á að með þessu sé Ólafur Ragnar að boða að hann bjóði sig ekki fram þegar forsetakosningar fara fram næsta sumar.
Forsetinn segir hins vegar að hann sé að setja Alþingi í síðasta sinn „samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól“ honum. Slíkt umboð gæti hann endurnýjað ef hann byði sig fram á ný.
Sagðist ætla að tilkynna í nýársávarpi
Ólafur Ragnar sagði í viðtali við Sölva Tryggvason á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í lok júlí að hann hefði ekki ákveðið hvort hann hygðist bjóða sig fram til embættis forseta á næsta ári eða ekki, og að hann myndi tilkynna um framboð sitt í nýársávarpi sínu um komandi áramót.
Áður hafði hann sagt í viðtali við Eyjuna á Stöð 2 í nóvember í fyrra að það væri hefð fyrir því að forseta landsins tilkynntu um hvort þeir hygðust hætta eða ekki í nýársávarpi eða við þingsetningu. Enn fyrr, eða í júní í fyrra, sagði hann í viðtali við tímaritið Monocle að hann myndi ekki bjóða sig fram. Þá sagði hann samt líka að hann hefði ekki ætlað að bjóða sig fram árið 2010, en svo hafi hann verið hvattur til þess í undirskriftasöfnun.
Ólafur Ragnar verður búinn að vera forseti í 20 ár þegar kosningarnar fara fram á næsta ári, eða fimm kjörtímabil.
Hér að neðan má horfa og hlusta á ræðu forsetans.