Í drögum að landsfundarályktunum efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins kemur fram að engin þörf sé fyrir eignarhald ríkisins á bönkum til framtíðar litið. Drögin verða til umfjöllunar á landsfundinum um næstu helgi.
Þetta er ágætis umræðuefni fyrir landsfundinn, en betra væri þó, að landsfundurinn fjallaði um ríkisábyrgðina á bönkum og bankastarfsemi, óháð því hvernig eignarhaldinu er háttað.
Í dag er staða mála þannig, að ef banki er rekinn það illa að hann kemst í vanda, þá er kerfislægt mikilvægi hans metið svo mikið, að seðlabanki skattgreiðanda þarf að grípa inn í, til dæmis með því að leggja bankanum til meira fé eða taka yfir eignarhald.
Þetta er ekki endilega óeðlilegt, þar sem bankar eru að sýsla með innlán almennings. Þannig er til dæmis staða mála í bönkunum hér á landi, þar sem nær öll fjármögnun bankanna byggir á innlánum almennings.
Efnahags- og viðskiptanefnd Sjálfstæðisflokksins mætti líka velta því fyrir sér hvernig megi afnema ríkisábyrgð á einkareknum bönkum. Á meðan ríkisábyrgðin er fyrir hendi, þá er kannski bara best að ríkið eigi bankanna líka? Það væri kannski spurning sem mætti nota til að opna umræðurnar á landsfundi. Orðið er laust...