"Hvað bíður Evrópu? Þetta?" Svona spyr presturinn Örn Bárður Jónsson í stöðuuppfærslu á Facebook og birtir neðangreinda mynd með.
Örn Bárður, sem er sóknarprestur í Neskirkju, virðist með myndbirtingunni og stöðuuppfærslunni vera að vísa til þess að ef Evrópa geti orðið fyrir auknum íslömskum áhrifum árið 2050, á sama hátt og Afganistan og Íran í kjölfar aukinna áhrifa íslamskra bókstarfstrúarmanna í þeim löndum frá áttunda áratugnum.
Mikil umræða hefur verið um flóttamannamál í Evrópu undanfarna daga í kjölfar þess að þúsundir flóttamanna, að mestu frá Sýrlandi, hafa drukknað við það að reyna að komast til Evrópu. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 60 milljónir manna hafi flúið heimili sín víðs vegar um heiminn. Sá flóttamannavandi sem nú er uppi er sá mesti sem heimurinn hefur upplifað frá seinni heimstyrjöldinni. Margir flóttamannanna eru múslimar.
Líkti Vantrú við ISIS en baðst síðan afsökunar
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Örn Bárður ratar í fréttir á undanförnum dögum. Í síðustu viku líkti hann guð- og trúleysissamtökunum Vantrú við hryðjuverkasamtökin ISIS Facebook-færslu. Örn Bárður birti mynd á Facebook-síðu sinni þar sem spurt var hvort það sé stigs- eða eðlismunur á Vantrú og hryðjuverkasamtökunum ISIS. Á myndinni sást maður, vopnaður hríðskotabyssu og merktur ISIS og Vantrú, skjóta vængjaða kirkjunnar menn í höfuðið og spurningin „Stigs- eða eðlismunur?“ sett fram. Örn Bárður baðst síðar afsökunar á teikningunni og sagðist hafa farið fram úr sér. Hann bað þolendur um að fyrirgefa sér mistökin og tók myndina út af Facebook-síðu sinni.
Uppfært klukkan 17:54:
Örn Bárður hefur fjarlægt færsluna af Facebook-síðu sinni og birt eftirfarandi stöðuuppfærslu:
"Að gefnu tilefni.
Mér barst til eyrna að Kjarninn hefði túlkað afstöðu mína um flóttafólk á annan veg en ég geri sjálfur.
Hef fagnað afstöðu Íslendinga varðandi málefni flóttamanna og styð heilshugar að við björgun öllum sem við getum.
Færsla mín á FB um þróun islam olli misskilningu hvað varðar afstöðu mína og það harma ég. Því hef ég fjarlægt færsluna.
Ég er ekki á móti múslimum en geri mér grein fyrir því að mörg svonefnd múslimsk lönd hafa því miður ekki gengið í gegnum siðbót (reformation), upplýsingu eða það sem franska bylyingin færði Vesturlöndum og heiminum. Það hefur aftur á móti hinn kristni heimur gert. Mér er annt um evrópska menningu og gildagrunn en leitast við að virða öll trúarbrögð og menningarflóru.
Nefni það í leiðinni að ég bauð Sverri Agnarssyni talsmanni múslima til opins fundar í Neskirkju, í fyrra að mig minnir, til að kynna sína trú og afstöðu. Þá fékk ég reyndar ákúrur frá sumum. Veit ekki til þess að aðrir prestar eða söfnuðir á Íslandi hafi boðið til slíks samtals.
Það er vandi að tjá skoðanir sínar og mér kemur í hug hið fornkveðna: aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Vona að þessi skrif taki af alla vafa um afstöðu mína."
Athugasemd ritstjórnar:
Kjarninn túlkaði ekki á neinn hátt afstöðu Arnar Bárðar til flóttamanna í frétt sinni.