Mikil örtröð myndaðist á Keflavíkurflugvelli um miðnætti í gærkvöld. Ástæðan er sögð óvenju mikil flugumferð en alls lentu 17 flugvélar á vellinum á rétt rúmum klukkutíma, að því er segir í frétt RÚV um málið. Haft er eftir farþega að flugstöðin hafi varla ráðið við farþegafjöldann. Um tuttugu mínútna bið hafi verið frá lendingu þar til hægt var að koma flugvéllinni að flugstöðinni. Þar var margt um manninn og erfitt hafi verið að koma töskum frá töskubandinu og að útgangi flugstöðvarinnar.
Umferð farþega um flugvöllinn hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Á fyrstu fimm mánuðum ársins fóru tæplega 380 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð, 30 prósent fleiri en á sama tímabili 2013. Fjölgun ferðamanna, talið í brottförum, á tímabilinu janúar til mars hvert ár má sjá á myndinni hér að ofan. Farþegar að Íslendingum meðtöldum eru síðan enn fleiri, eða um 407 þúsund á tímabilinu janúar til apríl 2015, samkvæmt tölum á vefsíðu Keflavíkurflugvallar. Það er aukning um 22,4 prósent frá sama tíma 2014.
Framkvæmdir hafa staðið yfir á fríhafnarsvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og lauk þeim í síðasta mánuði. Innritunarsvæðið hefur ekki verið stækkað og álag á háannartímum verið mikið. Stækkun komusalarins um 700 fermetra stendur yfir auk rúmlega 5000 fermetra stækkunar á suðurhluta flugstöðvarinnar. Áætlað er að þessir hlutar verði komnir í gagnið í mars 2016. Til framtíðar liggur síðan vinningstillaga hönnunarsamkeppni um þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun flugstöðvarinnar til norðurs og lagningu nýrrar flugbrautar vestan við flugvöllinn.
Upphafleg frétt hefur verið uppfærð með upplýsingum um heildarfjölda farþegar um Keflavíkurflugvöll.