Samstaða hefur náðst í fjárlaganefnd um tillögu stjórnarandstöðunnar að greiða öryrkjum 53.000 króna aukagreiðslu skattfrjálst og skerðingarlaust fyrir jólin.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarandstöðunni. Í henni segir að þingflokkar Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar fagni því að samstaða hafi náðst í fjárlaganefnd um aukagreiðsluna.
„Stjórnarandstaðan hefur undanfarið barist fyrir því að ríkisstjórnin greiði öryrkjum eingreiðslu líkt og gert var fyrir síðustu jól. Í síðustu viku lögðu fulltrúar flokkanna í fjárlaganefnd fram breytingartillögu við fjáraukalög þess efnis. Það eru því gleðitíðindi að stjórnarmeirihlutinn hafi loks fallist á tillögu stjórnarandstöðunnar og að fjárlaganefnd standi að baki slíkri tillögu,“ segir í tilkynningunni.
Aðgerðin skiptir þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar segist í stöðuuppfærslu á Facebook í kvöld fagna því að samstaða hafi náðst í fjárlaganefnd rétt í þessu um tillögu um að greiða öryrkjum aukagreiðsluna.
„Þingflokkar Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar hafa undanfarið barist fyrir því að ríkisstjórnin greiði öryrkjum og einstaklingum á endurhæfingarlífeyri eingreiðslu eins og gert var fyrir síðustu jól. Í síðustu viku lögðu fulltrúar flokkanna í fjárlaganefnd fram breytingartillögu þess efnis.
Það eru því gleðitíðindi að stjórnarmeirihlutinn hafi loks fallist á tillögu stjórnarandstöðunnar og að fjárlaganefnd standi að baki slíkri tillögu. Aðgerðin skiptir þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar!“ skrifar hún.
Eingreiðsla fyrir jólin verður samþykkt! Ég fagna því að samstaða hafi náðst í fjárlaganefnd rétt í þessu um tillögu...
Posted by Kristrún Frostadóttir / Þingmaður on Monday, December 20, 2021