Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir mati forseta Alþingis á því sem hann kallar „ofbeldi öryggisvarðar“ við Alþingi.
„Öryggisvörður Alþingis er í fréttum fyrir að beita mann ofbeldi fyrir utan Alþingishúsið. Fjölmiðlar hafa birt myndbandsupptökur af atburðinum. Öryggisverðir geta starfsins vegna þurft að beita ofbeldi, svo mikilvægt er að faglega sé staðið að því að meta réttmæti þess þegar ofbeldi hefur verið beitt,“ segir Jón Þór í tilkynningu.
Hann hefur óskað er eftir því að forseti Alþingis, sem yfirmaður starfsmanna þingsins, rannsaki málið. „Í anda faglegra vinnubragða er jafnframt óskað eftir því að forsætisnefnd fari yfir málið og hafi þá m.a. til hliðsjónar gildi skrifstofu Alþingis: 'Þjónustulund, Fagmennska, Samvinna' og hæfniskröfur öryggisstarfsmanna Alþingis s.s. hæfni í mannlegum samskiptum og fáguð framkoma,“ segir í tilkynningu Jóns Þórs.
Sjá má myndband af atburðinum sem Jón Þór hefur nú tekið upp við forseta Alþingis, sem birt hefur verið á Youtube, hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=13pgJAOdZaQ