Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, vandar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra ekki kveðjur á Facebook-síðu sinni, en hann segir skort á verkstjórn Sigmundar Davíðs í ríkisstjórninni farið að „verða eitt alvarlegasta efnahagsvandamálið sem þjóðin glímir við í dag“. Hann segir stöðu ungra fjölskyldna á húsnæðismarkaði vera mikið áhyggjuefni og að staðan á leigumarkaði sé „geggjuð“.
Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár, um verðþróun á leigu- og fasteignamarkaði, þá hækkaði vísitala leiguverðs um 7,5 prósent í fyrra á meðan vísitala íbúðaverðs hækkaði um 9,6 prósent. Fasteignaverð hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár, og leiguverð sömuleiðis. Eins og greint var frá á vef Kjarnans 26. nóvember, þá spáir hagfræðideild Landsbankans 24 prósent hækkun húsnæðisverðs á næstu þremur árum. Samkvæmt spánni verður hækkun á þessu ári 9,5 prósent.
Össur tiltekur sérstaklega fjármagnshöftin og aðstæður á húsnæðismarkaði, sem séu grafalvarlegar. „Uppsprengt húsnæðisverð vegna gjaldeyrishafta veldur því að ung fjölskylda, jafnvel með tvær fyrirvinnur í starfi, á í erfiðleikum með að komast gegnum greiðslumat. Ungu fólki, ekki síst námsmönnum, og þeim sem eru að stofna fjölskyldur, er kastað á villtan leigumarkað, sem hefur aldrei í manna minnum verið geggjaðri. Verðin sem maður sér og heyrir um á leigumarkaði eru hreint út sagt ótrúleg. – Að stórum hluta eru þetta afleiðingar gjaldeyrishaftanna. Þau skekkja húsnæðismarkaðinn, hækka fasteignaverð og leiguverð upp úr öllu valdi. Ungt fólk, námsmenn og ungar fjölskyldur, eru helstu fórnarlömbin,“ segir Össur. Hann segir jafnframt vera sorglegt að sjá, að „ríkisstjórn Sigmundar hefur bráðum eytt tveimur árum án þess að nokkuð gerist, nema þref hans við Bjarna Benediktsson um leiðir. Á meðan gerist lítið.“
Bjarni Benediktsson sagði á Alþingi í dag í umræðum um fjármagnshöftin, samkvæmt endursögn mbl.is, að vinna við afnám fjármagnshafta væri í gangi, og unnið væri að því að finna leiðir sem ekki ógni stöðugleika. Hann sagðist hafa trú á því að hægt væri að stíga afgerandi skref í átt að því að afnema höft á næstu misserum.