Óttarr Proppé er nýr formaður Bjartrar framtíðar. Hann var sjálfkjörinn í embættið á ársfundi flokksins sem fram fór í dag á Ásbrú í Reykjanesbæ, enda einn í framboði.
Brynhildur S. Björnsdóttir, gjaldkeri og varaþingmaður flokksins, var kjörin nýr stjórnarformaður hans og tekur við embættinu af Margréti Marteinsdóttur. Margrét hafði verið kjörin í starfið í lok janúar síðastliðins, eftir að Heiða Kristín Helgadóttir, hætti sem slíkur.
Brynhildur S. Björnsdóttir, nýr stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Margrét sóttist ekki eftir endurkjöri og sat því einungis rúma fimm mánuði í embætti. Þrír aðrir sóttust eftir því að verða stjórnarformenn Bjartrar framtíðar. Þeir eru Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og sveitastjórnarfulltrúi flokksins þar, Preben Pétursson (varaþingmaður Bjartrar framtíðar) og Matthías Freyr Matthíasson.
Guðmundur Steingrímsson, annar stofnandi Bjartrar framtíðar, hafði verið formaður flokksins frá því að hann var stofnaður árið 2012. Hann sóttist ekki eftir endurkjöri í embætti.
Fleiri breytingar hafa orðið í forystu Bjartrar framtíðar síðustu daga. Í gær ákvað þingflokkur flokksins að Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður hans, yrði þingflokksformaður í stað Róberts Marshall, sem hafði beðist lausnar.