Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána af íbúðalánum til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, hefur aukist í ár. Ný verðtryggð íbúðalán halda ekki í við uppgreiðslur og skuldaniðurfærsluna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Hluti nýrra lána fer í uppgreiðslur eldri lána.
Hlutfall verðtryggðra lána á fyrstu átta mánuðum ársins um 61 prósent en hlutfall óverðtryggðra lána 39,3 prósent.
Allt árið í fyrra var hlutfall verðtryggðra lána 64,3 prósent, sem var mikill viðsnúningur frá árinu 2013, þegar óverðtryggð lán voru vinsælli, og námu 61,6 prósentum.
Vegna mikilla uppgreiðslna gengur hratt á lán Íbúðalánasjóðs til heimila. Má lauslega áætla að þau lán hafi minnkað um tæpa 40 milljarða á fyrstu átta mánuðum ársins, sem er 15 milljörðum meira en öll verðtryggð íbúðalán hjá bönkunum á sama tímabili. Leiðréttingin skýrir þetta að hluta.
Verðbólga er með minnsta móti líkt og verið hefur um langt skeið nú. Því gæti komið á óvart að hlutfall verðtryggðra lána sé ekki hærra, en á móti kemur að fyrr á árinu var meiri verðbólgu spáð á seinni hluta ársins, sem gæti hafa haft áhrif.
Hlutfall óverðtryggðra lána er hæst hjá Arion banka, en þar er það rétt yfir 50 prósentum af nýjum lánum á árinu. Hjá Landsbankanum var hlutfall verðtryggðra lána 61,1 prósent og 59% hjá Íslandsbanka.