Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokks og fulltrúi í atvinnuveganefnd Alþingis, sem telur sig ekki vanhæfan til að fjalla um frumvarp sjávarútvegsráðherra um úthlutun makrílkvóta þó útgerðarfélag konu hans, Marver, fái fimmtíu milljóna króna makrílkvóta verði frumvarpið að lögum, stofnaði umrætt útgerðarfélag árið 2002 og sat sem stjórnarformaður þess þar til í lok nóvember 2013, eða sjö mánuðum eftir síðustu Alþingiskosningar.
Eiginkona Páls Jóhanns, Guðmunda Kristjánsdóttir, tók þá við stöðu stjórnarfomanns hjá Marveri og er hún skráð einn eigandi að félaginu í dag, samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Tilkynnt var um breytingu á stjórn félagsins til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra þann 22. nóvember árið 2013.
Samkvæmt svokallaðri samrunaáætlun Marvers og félagsins Dorgs ehf, frá því í desember 2011, átti Páll Jóhann 90 prósenta hlut í sameinuðu félagi á þeim tíma. Eiginkona hans átti þá tíu prósenta hlut. Ekki kemur fram í gögnum sem send hafa verið fyrirtækjaskrá hvenær eignarhlutur Páls Jóhanns var færður alfarið yfir til eiginkonu hans.
Auk þessa á fyrrgreindur þingmaður, Páll Jóhann, og fulltrúi Framsóknarflokks í atvinnuveganefnd Alþingis, tæplega 5 prósenta hlut í útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík. En sjávarútvegsfyrirtækið er að fullu í eigu Páls og fjölskyldu hans.
Þá má geta þess að bátur í eigu Davíðs Freys Jónssonar, sem á sæti í sjávarútvegsnefnd Framsóknarflokksins, fær úthlutað makrílkvóta sem metinn er á 200 milljónir króna, sem er þrefalt meiri kvóti en báturinn veiddi á síðasta fiskveiðiári, verði frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins, að lögum. Fréttablaðið greinir frá þessu.