„Í stað þess að sigla nú lygnan sjó með reksturinn í jafnvægi, eins og væri ef aðgerðirnar í árslok 2013 hefðu verið látnar ná fram að ganga, er reksturinn nú í uppnámi með endurtekinni óvissu fyrir starfsmenn. Og ekki nóg með það: flestir þeir sem mesta reynslu og þekkingu höfðu á rekstri RÚV voru reknir, nokkrir til viðbótar hættu af sjálfsdáðum þegar þeir sáu hvað verða vildi, og það góða fólk sem kom í staðinn á flest það sameiginlegt að hafa enga reynslu né þekkingu á rekstri fjölmiðla yfir höfuð." Þetta segir Páll Magnússon, fyrrum útvarpsstjóri RÚV, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir núverandi stjórnendur RÚV og umræðuna um niðurskurð til fyrirtækisins harkalega. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fær líka sinn skerf af beittri gagnrýni. Páll segir hann hafa hlaupið svo hratt frá sjálfum sér í málum tengdum RÚV að „svo virtist sem fjórir fætur væru á lofti í senn".
Páll fullyrðir að ef þær niðurskurðaraðgerðir sem hann og stjórnendateymi hans réðst í í lok árs 2013 hefðu verið framkvæmdar að fullu myndu fjármál RÚV vera í jafnvægi og viðbótarframlag ríkisins gæti allt runnið til aukinnar dagskrárgerðar. Þess í stað hafi verið ráðist í kúvendingar. „Árangurinn er m.a. sá, þrátt fyrir afburða starfsfólk, að nær allar kennitölur sem notaðar eru sem mælikvarði á frammistöðu RÚV lækkuðu á síðasta ári: Hlutur RÚV í sjónvarpsáhorfi landsmanna minnkaði; hlutur Rásar 2 í útvarpshlustun landsmanna minnkaði (Rás 1 jók hlut sinn lítillega); áhorf á fréttir RÚV minnkaði; traustið á RÚV sem stofnun minnkaði og traustið á fréttastofu RÚV minnkaði. Og reksturinn sjálfur breyttist úr hagnaði í tap sem ekki sér fyrir endann á, þrátt fyrir rauntekjuaukningu á fjárlögum."
Páll hætti sem útvarpsstjóri í desember 2013 eftir að stjórn RÚV ákvað að auglýsa stöðu hans. Magnús Geir Þórðarson tók við starfi hans snemma árs 2014.
Hægt er að lesa grein Páls í heild sinni hér.