Meirihluti Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í borgarstjórn stendur í ströngu eftir að hafa samþykkt ályktun Bjarkar Vilhelmsdóttur, sem hætti nýverið sem borgarfulltrúi, um að sniðganga vörur frá Ísrael.
Það sem einna mesta athygli vekur við þetta mál, er að það virðist ekki hafa verið neitt undirbúið eða rökrætt af neinni festu, áður en það var tekið fyrir og afgreitt. Það verður að teljast með ólíkindum, enda sjaldgæft að Reykjavíkurborg blandi sér beint í utanríkismál þjóðarinnar með ákvörðun eins og þessari, og það þvert á vilja utanríkisráðherra og stjórnvalda.
Það er ekki fjarri lagi að tala um viðskiptabann í þessu samhengi, þrátt fyrir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segi tillöguna ekki fela það í sér.
Alveg óháð hagsmununum sem eru í húfi, bæði hvað varðar viðskipti og orðspor Íslands, þá er lágmark að meirihluti borgarstjórnar geti rökstutt almennilega hvað honum gengur til með tillögunni, og hvers vegna þessi tiltekna flókna alþjóðadeila er tekin upp í ákvörðun um viðskiptaþvinganir, en ekki aðrar. Ef það væru vel rökstuddar og góðar ástæður fyrir því, þá væri afstaðan skýrari. Það sem virðist hins vegar vera á ferðinni er eins konar persónuleg pólitísk kveðja meirihlutans til Bjarkar Vilhelmsdóttur, rétt áður en hún fór sjálf til Palestínu. Slíkar kveðjur eiga ekkert erindi í pólitískt starf borgarstjórnar.