Persónuvernd hefur formlega óskað eftir skýringum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna upplýsingasöfnunar hennar um einstaklinga sem tóku þátt í mótmælum í byrjun árs 2009. Alma Tryggvadóttir lögfræðingur hjá Persónuvernd staðfesti þetta við Kjarnann í dag.
Erindi með ýmsum spurningum vegna upplýsingasöfnunarinnar í mótmælunum var sent til lögreglunnar í dag með boðsendingu. Alma sagðist ekki geta afhent bréfið, en það verði birt um leið og móttaka hefur verið staðfest hjá lögreglu.
Spurningar Persónuverndar snúa meðal annars að því hvernig farið var með upplýsingar sem lögreglan safnaði um einstaklinga, hvers vegna upplýsingunum var safnað saman og á hvaða lagagrunni það var gert.
Lögreglan hefur farið fram á að fjölmiðlar skili aftur skýrslu um viðbúnað vegna mótmæla sem afhent fyrir helgi, að því er fram kom í fréttum RÚV. Vegna mistaka eru í skýrslunni fjölmörg nöfn og aðrar upplýsingar vel greinanlegar, þótt búið sé að sverta textann með yfirstrikunarpenna. Jón H. Snorrason yfirlögregluþjónn hefur formlega beðist afsökunar á þessum mistökum.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að lögreglu hafi borið að afhenda skýrsluna með þeim fyrirvara að afmá skuli tilteknar upplýsingar um einstaklinga.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að þau afrit skýrslunnar sem ekki uppfylli þau skilyrði að textinn sé afmáður með tryggum hætti, verði innkölluð.