Fylgi Pírata mælist 35 prósent í nýrri skoðanakönnun MMR, samanborið við 33,2 prósent í síðustu könnun. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist 4,4 prósent en var síðast 5,6 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 33,2 prósent og eykst frá síðustu könnun, þegar stuðningurinn mældist 30,4 prósent.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 23,1 prósent, borið saman við 23,8 prósent í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 12,2 prósent, borið saman við 10,6 prósent í síðustu könnun. Fylgi Vinstri-grænna mældist nú 10,2 prósent, borið saman við 12,0 prósent í síðustu könnun. Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 9,6 prósent borið saman við 9,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 2 prósent.
Könnunin var gerð dagana 22. til 30. júlí.
Langstærsti flokkur landsins
Píratar bæta við sig frá síðustu könnun MMR. Þá mældist fylgi flokksins 33,2 prósent. Þetta er sjötta könnun MMR í röð sem Píratar mælast með yfir 30 prósent fylgi. Flokkurinn er langstærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni.
Þar á eftir kemur Sjálfstæðisflokkur með 23,1 prósent fylgi. Hann dalar á milli kannana og mælist með minna fylgi en hann fékk í verstu alþingiskosningum í sögu flokksins, árið 2009. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn, sem fékk mest fylgi allra stjórnmálaflokka í síðustu kosningum, 23,7 prósent atkvæða.
Staða Framsóknarflokksins vænkast lítillega frá því að MMR mældi hana síðast. Nú segjast 12,2 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Flokkurinn er hins vegar enn langt frá kjörfylgi sínu en hann fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum í apríl 2013. Fylgi hans hefur því nákvæmlega helmingast síðan þá.
Björt framtíð næði ekki inn manni
Sá flokkur sem þarf að hafa mestar áhyggjur af stöðu sinni er Björt framtíð. Fylgi flokksins hefur verið í frjálsu falli síðan í fyrrahaust þegar það mældist um 22 prósent í könnunum MMR. Nú mælist fylgið einungis 4,4 prósent og er það í fyrsta sinn sem Björt framtíð mælist undir fimm prósent þröskuldinum sem þarf til að koma manni að á Alþingi eftir að flokkurinn náði inn á þing vorið 2013.
Samfylkingin glímir við sambærilega tilvistarkreppu. Þótt fylgi flokksins hækki lítillega á milli kannana, fari úr 9,3 prósentum í 9,6 prósent, er það samt töluvert frá þeim 12,9 prósentum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Og sú niðurstaða var sögulegt afhroð fyrir Samfylkinguna, sem hafði minnst fengið 26,8 prósent í kosningum áður. Niðurstaðan í nýju könnun MMR er næst lægsta fylgi sem Samfylkingin hefur mælst með í mælingum fyrirtækisins frá upphafi. Eina skiptið sem hún hefur mælst með lægra fylgi var í könnuninni á undan.
Vinstri grænir eru sá stjórnmálaflokkur sem sýnir mestan stöðugleika í fylgi í könnunum. Nú mælist fylgi hans 10,2 prósent, sem er ekki langt frá þeim 10,9 prósentum atkvæða sem flokkurinn fékk í kosningunum 2013. Á þessu kjörtímabili hefur MMR mælt fylgi flokksins hæst 17 prósent en lægst 9,6 prósent. Vinstri grænir eru því að mælast við neðri mörk fylgisbils síns um þessar mundir.