Píratar hafa skipt Sævari Óla Helgasyni, varamanni í stjórn Faxaflóahafna, út úr stjórninni fyrir Evu Lind Þuríðardóttur. Þetta var gert í kjölfar þess að ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Sævari Óla fyrir hótanir í garð móður lögreglumanns, en hann hótaði meðal annars að kaghýða hana að lögreglumanninum ásjáandi. Í tilkynningu frá Pírötum vegna breytinganna segir að Sævar Óli muni ekki gegna trúnaðarstörfum fyrir Pírata á meðan að mál hans er óuppgert.
Þá hafa Píratar einnig skipt um mann í hverfisráði Breiðholts. Sigmundur Þórir Jónsson hefur vikið sæti fyrir Hreiðari Eiríkssyni. Í tilkynningunni segir að Sigmundur hafi nýverið flutt úr Breiðholti og stjórnmálaaflinu þyki réttast að fulltrúi sinn í ráðinu búi í hverfinu. Þar segir einnig: „Hreiðar er enginn hvítvoðungur í pólitík en er þó nýliði hjá Pírötum, en hann laðaðist að Pírötum í kjölfar þess að hann sagði sig úr framboði fyrir Framsókn og flugvallarvini í síðustu sveitarstjórnarkosningunum, og lét hann svo alfarið af störfum fyrir þann flokk.“
Hreiðar var í fimmta sæti á lista Framsóknar og flugvallarvina fyrir síðustu kosningar. Nokkrum dögum áður en þær fóru fram tilkynnti Hreiðar að hann styddi ekki lengur framboðið. Ástæðan voru hin mjög svo umdeildu ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina, um að hún vildi afturkalla lóð sem hefði verið úthlutað til byggingar mosku í Reykjavík. Í tilkynningu sem Hreiðar birti á Facebook í kjölfarið sagði m.a. "Það er því með sorg í hjarta sem ég læt hér með vita af því að ég styð ekki lengur framboð Framsóknar og flugvallarvina til borgarstjórnar í Reykjavík".