Píratar mælast stærsti stjórnmálaflokkur landsins fjórða mánuðinn í röð í könnunum Gallups. Fylgi flokksins mælist nú um 32 prósent og hefur haldist stöðugt yfir 30 prósentum frá því í apríl. Alls segjast 36 prósent styðja ríkisstjórnina og níu prósent aðspurðra að þeir myndu skila inn auðu eða sleppa því að kjósa ef kosið yrði nú. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með um 24 prósent fylgi sem er svipað og versta útkoma flokksins í sögunni, en hann fékk 23,7 prósent í alþingiskosningunum 2009. Þegar kosið var fyrir tveimur árum hlaut flokkurinn 26,7 prósent atkvæða.
Framsóknarflokkurinn mælist nú með um tólf prósent fylgi. Flokkurinn heldur áfram að bæta lítillega við sig á milli mánaða en fylgi flokksins mældist 8,9 prósent í maí, sem er með því lægsta sem það hefur nokkru sinni mælst. Björt framtíð heldur áfram að dala í vinsældum hjá kjósendum og fylgi flokksins mælist nú um fimm prósent. Vinstri grænir tapa líka fylgi á milli mánaða og mælast nú með um níu prósent fylgi.
Samfylkingin bætir við sig fylgi og um tólf prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag.
Fylgi við ríkisstjórnina mælist, líkt og áður segir, um 36 prósent og stendur í stað á milli mánaða.