Píratar eru langstærsti flokkur landsins með 34,1 prósent fylgi samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24 prósent og Framsóknarflokkurinn með 8,9 prósent. Fylgi Pírata mælist því meira en samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Fylgi ríkisstjórnarinnar hefur aldrei mælst lægra í könnunum Gallup, en um 31 prósent aðspurðra styðja nú ríkisstjórnina. Fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki mælst lægra í könnunum fyrirtækisins síðan að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð formaður flokksins í janúar 2009. Niðurstöðurnar ríma að þessu leyti mjög við síðustu birtu niðurstöður MMR.
Samfylkingin mælist með 12,4 prósent fylgi um þessar mundir og Vinstri græn með 9,8 prósent. Þá segjast 7,4 prósenta aðspurðra að þeir myndu kjósa Bjarta framtíð og 4,3 prósent aðra flokka.
Píratar myndu fá 24 þingmenn
Ef kosið yrði í dag myndi það þýða að Píratar fengju 24 þingmenn af 63. Samfylkingin fengi átta þingmenn og stjórnarandstöðuflokkarinar tveir gætu því myndað afar tæpan meirihluta. Vinstri grænir myndu fá sex þingmenn og Björt framtíð fimm. Stjórnarflokkarnir tveir væru ansi langt frá því að vera með meirihluta á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá 15 þingmenn en Framsóknarflokkurinn fimm. Báðir flokkar fengu 19 þingmenn hvor í síðustu kosningum.
Könnunin var netkönnun, gerð dagana 30. apríl til 28. maí. 8500 einstaklingar, valdir af handahófi, voru í úrtaki Gallup en svarhlutfallið var 57,2 prósent. Spurt var: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. 10,9 prósent tóku ekki afstöðu milli flokka eða neituðu að svara en 10,8 prósent sögðust skila auðu eða ekki myndu kjósa. 78,4% nefndu flokk.
Vikmörk á fylgi við flokka á landsvísu eru 0,8-1,5 prósent.
Auglýsing